Maðkaopnun gaf 44 á fyrstu vakt

Glímt við lax í Ytri Rangá. Maðkaopnunin núna er slakari …
Glímt við lax í Ytri Rangá. Maðkaopnunin núna er slakari en oft áður og er það í takt við stöðuna í sumar, en töluvert minna er af fiski í báðum Rangánum en í fyrra. westranga.is

Breytt veiðifyrirkomulag tók gildi í gær í Ytri-Rangá. Fram til þessa hefur eingöngu verið heimilað að veiða á flugu, en síðdegis í gær varð breyting á. Leyft er nú að veiða einnig á maðk og spún og voru veiðimenn sem hófu veiðar á seinni vaktinni afar spenntir. Þegar tveir klukkutímar voru liðnir af vaktinni vissi Jóhannes Hinriksson staðarhaldari þegar um 25 laxa sem landað hafði verið.

Erum við að tala um hundrað laxa vakt?

„Nei biddu fyrir þér. Það er ekki það mikið af laxi í ánni. Ég væri mjög sáttur ef við værum að tala um fimmtíu,“ sagði Jóhannes í samtali við Sporðaköst fyrr í gær.

Þegar vaktinni var lokið og ánægðir veiðimenn fóru að tínast í hús kom í ljós að samtals hafði hollið landað 44 löxum á fyrstu vaktinni.

„Já, þetta var í takt við það sem ég átti von á. Vonandi heldur þetta svona áfram,“ sagði kampakátur Jóhannes.

Rangárflúðir er einn af þeim stöðum í Ytri Rangá sem …
Rangárflúðir er einn af þeim stöðum í Ytri Rangá sem geymir töluvert magn af fiski. westranga.is

Flestir laxarnir veiddust á svæði þrjú og er mikið af fiski þar. Annars er þessi maðkaopnun mun lakari en oft hefur verið og er það í takt við sumarið, sem hefur einkennst víða um land af minni heimtum á seiðum.

Þegar vikulegar veiðitölur birtust á angling.is á miðvikudag var Ytri-Rangá ásamt vesturbakka Hólsár með 1.184 laxa. Þetta er miklu minni veiði en í fyrra þegar áin endaði í ríflega fjögur þúsund löxum. Veitt er á átján stangir á vatnasvæðinu. Ytri-Rangá er ein af aðeins fjórum laxveiðiám á Íslandi sem náð hafa þúsund löxum eða meira í sumar. Samkvæmt síðustu tölum var vikuveiðin í Ytri-Rangá 78 laxar. Það er ljóst að sú tala verður mun hærri eftir þessa viku.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Laxá á Ásum Chis Warne 6. ágúst 6.8.
100 cm Fnjóská Gunnar Jónsson 2. ágúst 2.8.
101 cm Laxá í Dölum Arnór Ísfjörð Guðmundsson 30. júlí 30.7.
102 cm Laxá í Dölum Arnór Ísfjörð Guðmundsson 26. júlí 26.7.
106 cm Nesveiðar Ingvi Jökull Logason 25. júlí 25.7.
102 cm Nesveiðar Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 25. júlí 25.7.
102 cm Nesveiðar Nils Folmer Jörgensen 21. júlí 21.7.

Skoða meira