Markmiðið: Fullnaðarsigur í eldismálum

Nýráðinn framkvæmdastjóri LV hefur mikinn áhuga á stangaveiði og hefur ...
Nýráðinn framkvæmdastjóri LV hefur mikinn áhuga á stangaveiði og hefur sjálfur verið með Ásana á leigu, ásamt öðrum. Ljósmynd/Kristján Friðriksson

Elías Blöndal Guðjónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga. Hann tekur við af Árna Snæbjörnssyni sem hefur verið framkvæmdastjóri landssambandsins frá árinu 2003.

Elías hefur starfað sem framkvæmdastjóri Bændahallarinnar ehf. frá árinu 2016 og mun áfram gegna því starfi samhliða vinnu fyrir landssambandið. Elías er lögfræðingur og hefur meistarapróf frá Háskólanum í Reykjavík. Hann starfaði hjá Bændasamtökum Íslands frá 2010-2016 og sat í stjórn Hótels Sögu ehf. frá 2014-2018. Elías rak jafnframt eigið fyrirtæki í sölu veiðileyfa frá 2010-2016.

Elías Blöndal er veiðimaður og hann fer eins oft að veiða og tími leyfir. „Ég hef mikinn áhuga á stangaveiði og fer eins oft og ég get. Sumarið var hins vegar annasamt og ég komst ekki eins oft og ég ætlaði.“

Hvað er í uppáhaldi hjá þér?

„Það er náttúrlega Laxá á Ásum. Ég hafði hana á leigu í samstarfi við aðra í fimm ár. Þetta er skemmtilegasta á sem ég hef komið í og ekki skemmir fyrir hversu gjöful hún er. Það er mín uppáhaldsveiðiá.“

Elías Blöndal Guðjónsson, lögmaður tekur við starfinu af Árna Snæbjörnssyni. ...
Elías Blöndal Guðjónsson, lögmaður tekur við starfinu af Árna Snæbjörnssyni. Baráttan gegn sjókvíaeldi er stærsta og brýnasta málið að mati Elíasar. Ljósmynd/Tjörvi Bjarnason

Þú ert að færa þig á milli skrifstofa í Bændahöllinni. Er eitthvað sem brennur sérstaklega á þér varðandi landssambandið?

„Það sem brennur náttúrlega sérstaklega á okkur og hefur gert undanfarin misseri eru eldismálin. Sú barátta er í forgrunni og mun halda áfram ef fram heldur sem horfir. Auðvitað hefur náðst árangur í þessari baráttu en betur má ef duga skal og það þarf að halda áfram af fullum krafti. Menn verða ekki ánægðir fyrr en næst fullnaðarsigur í þessu máli. Það er endamarkmiðið,“ sagði hinn nýbakaði framkvæmdastjóri í samtali við Sporðaköst.

Á heimasíðu Landssambands veiðifélaga, angling.is, er Elías boðinn velkominn og um leið er Árna Snæbjörnssyni þakkað fyrir störf sín í þágu sambandsins.

mbl.is