Þriðji 104 cm laxinn á þremur árum

Jóhann Hafnfjörð Rafnsson með enn einn 104 sentímetra fiskinn úr ...
Jóhann Hafnfjörð Rafnsson með enn einn 104 sentímetra fiskinn úr Laxá í Aðaldal. Hann veiddist á stórlaxasvæðinu í Nesi og veiðistaðurinn heitir Beygjan. Endurtekið efni. Ljósmynd/Aðsend

Lax sem mælist 104 sentímetrar er ekki algeng skepna, nema hjá Jóhanni Hafnfjörð Rafnssyni. Í morgun landaði hann 104 sentímetra hæng í Laxá í Nesi í veiðistað sem heitir Beygjan og flugan var Munroe's killer númer 10.

„Kærastan mín hringdi í mig og hélt að þetta væri myndin frá í fyrra,“ skellihlær Jóhann. En það er ekkert skrítið því 2018 veiddi hann fisk á sama veiðistað sem mældist 104 sentímetrar og tók fluguna Munroe's killer, reyndar númer fjórtán. Og til að toppa það hafði hann fengið árinu áður 104 sentímetra lax í Nesi en þá reyndar í veiðistaðnum Álftaskeri.

Þetta er fjórði fiskurinn sem Jóhann landar í þessum flokki í þremur veiðitúrum. Hann segir: „Maður fer hingað til að lenda í þessu.“

Ég átta mig á því. En það tekst ekki öllum.

„Þetta er þriðji fiskurinn í hollinu núna sem er yfir hundrað sentímetrar. Tveir veiðimenn voru að landa sínum fyrstu fiskum af þessari stærð.“

Jóhann greindi frá þessu á facebooksíðu sinni og klykkti út með þessum orðum:

„Einstök á með einstökum fiskum.“

mbl.is