„Þetta sumar var martröð“

Einar Sigfússon landar laxi í Norðurá. Þetta var sumar sem ...
Einar Sigfússon landar laxi í Norðurá. Þetta var sumar sem hann vill ekki upplifa aftur. mbl.is/Einar Falur

„Þetta er búið að vera skelfilega leiðinlegt og erfitt sumar,“ sagði Einar Sigfússon rekstraraðili Norðurár í samtali við Sporðaköst í dag. Norðurá er að nálgast 500 laxa í sumar en meðalveiði í Norðurá er í kringum 1.570 laxar. Iðulega er hún í hópi tíu efstu ánna á Íslandi en því er ekki að heilsa nú. Hún er í 14. sæti en aðalsvæðinu, Norðurá 1, verður lokað hinn 12. þessa mánaðar.

„Maður er hálfmiður sín eftir þetta sumar. Auðvitað skánaði veiðin aðeins í restina þegar loks fór að rigna en það er ekki neitt sem bjargar sumrinu. Fiskifræðingar voru búnir að segja okkur að hrygningin árið 2014 hefði ekki verið góð. Við áttum alveg von á því að útkoman yrði ekkert sérstök í sumar en svo komu þessir þurrkar ofan í kaupið. Þá hætti fljótt að vera gaman.“

Fyrsta laxinum úr Norðurá hefur verið landað í sumar. Fyrsti ...
Fyrsta laxinum úr Norðurá hefur verið landað í sumar. Fyrsti dagur leit vel út. Eftir það var allt niður á við. Lítið af fiski og enn minna af vatni. ÞGÞ

Hann segir að loksins sé komið þokkalegt vatn í Norðurá og það sé betri veiði núna. „En áin fer aldrei í meira en sex hundruð fiska. Það er bara þannig.“

Einar hefur átt fundi með fiskifræðingum og landeigendum og hvatt til þess að farið verði í átak til að styrkja ána. Hann hefur lagt á það áherslu við veiðiréttareigendur að nú verði komið til móts við veiðimenn og ána sjálfa. Hann horfir þar til Miðfjarðarár.

„Við erum að fara að kreista fisk og grafa hrogn í haust. Þetta hefur ekki verið gert áður í Norðurá og að sama skapi kemur til greina í framtíðinni að setja upp sleppitjarnir. Við eigum náttúrlega ekki seiði á lager. Ég fór yfir mína sýn með bændum á fundi síðasta laugardag. Norðurá á að skila 2.500 til 3.000 löxum á hverju sumri, hvernig sem árferði er. Það gerist ekki nema við ráðumst í aðgerðir.“

Norðurá var ekki svipur hjá sjón og þetta er lélegasta ...
Norðurá var ekki svipur hjá sjón og þetta er lélegasta ár, veiðilega sem menn muna. Einar Falur Ingólfsson

Einar bendir á sem skýringu á fiskleysinu að bæði hafi hrygningin árið 2014, sem skilaði seiðum út í fyrra, verið léleg og ekki tók betra við í sjónum. Sjór var óvanalega kaldur og seiðin fengu því óblíðar móttökur.

Annað er upp á teningnum núna. Útganga seiða var góð og sjávarhiti mun hærri en í fyrra. Einar leyfir sér því að vera bjartsýnn.

En er þetta ekki svolítið þannig að ef við töpum bjartsýninni þá getum við hætt þessu?

Hann hlær. „Ég var nú að segja við konuna mína í morgun þegar við vorum að pakka saman stöngunum eftir veiði í Norðurá: Ef einhver hefði sagt við okkur í byrjun vertíðar hvernig þetta sumar mundi þróast hefðum við litið á það sem eitthvert grín. Lélegan brandara. En þetta er það erfiðasta sem maður man eftir.“

Er þetta ekki bara búið að vera martröð?

„Jú, það er búið að vera það. Ég myndi ekki vilja upplifa þetta aftur.“

mbl.is