Tungulækurinn byrjar vel

Opnunarhollið í Tungulæk gerði ágæta veiði. Tuttugu fiskar komu á ...
Opnunarhollið í Tungulæk gerði ágæta veiði. Tuttugu fiskar komu á land. Hér er erlendur veiðimaður með einn af þeim. Ljósmynd/Strengur

Fyrsta hollið í Tungulæk landaði tuttugu fiskum á tveimur dögum. Tungulækur er ein af nafntoguðustu sjóbirtingsám landsins og eins og flestar þeirra er hún í Vestur-Skaftafellssýslu. Tungulækur rennur út í Skaftá nokkru neðan við Kirkjubæjarklaustur.

Ingólfur Helgason hjá Veiðiklúbbnum Streng sem annast sölu veiðileyfa í Tungulækinn segir mikið gengið af fiski í lækinn og mest sé af honum á Breiðunni sem er einn efsti veiðistaðurinn í Tungulæk.

Fiskarnir sem veiddust í opnunarhollinu voru vel haldnir og sagði Ingólfur í samtali við Sporðaköst að mjög gott hlutfall hefði verið af stórum fiski. Nú fer að fara í hönd besti sjóbirtingstíminn og þá bætist fljótt í fjöldann í Tungulæk og fiskur dreifist betur.

Nýtt og glæsilegt veiðihús var tekið í notkun við Tungulæk í sumar.

Veiðitímabilinu er skipt í tvennt eins og í flestum sjóbirtingsám. Fyrra tímabilið er vorveiði sem hefst í byrjun apríl og stendur fram í miðjan maí. Haustveiðin hefst svo 1. september og lokadagur er 20. október. Veitt er á þrjár stangir í Tungulæk.

mbl.is