Vikulegar veiðitölur - lítið breyst

Laxi landað í Rauðhyl í Selá í sumar. Selá er …
Laxi landað í Rauðhyl í Selá í sumar. Selá er búin að gefa meiri veiði í sumar en allt sumarið í fyrra. Ljósmynd/IH

Selá í Vopnafirði er ein af örfáum ám á landinu sem eru komnar með meiri veiði í sumar en allt árið í fyrra. Þetta er enn ein staðfestingin á því hversu norðausturhornið hefur verið sterkt í samanburði við aðra landshluta þegar horft er til laxveiði. Landssamband veiðifélaga birti vikulegar veiðitölur í morgun á vef sínum angling.is. Þar eru engar stórar fréttir á ferðinni. Haustið er komið og dregur nú í rólegheitum úr veiðinni þó að enn kunni að koma skot hér og þar.

Sem fyrr er Eystri-Rangá efst á listanum en hafði í morgun ekki skilað inn tölum fyrir síðustu viku. Selá er í öðru sæti með 1.391 lax og var vikuveiðin þar 91 fiskur. Lokatalan í Selá í fyrra var 1.340 laxar.

Í þriðja sæti er Ytri-Rangá og var heildarveiði þar í síðustu viku 180 laxar, en maðkaopnun kemur þar til að hluta. Ytri-Rangá er komin í 1.364 laxa. Miðfjarðará er í fjórða sæti og hefur listinn lítið breyst.

Athygli vekur að Laxá á Ásum er komin í 682 laxa en heildarveiðin í fyrra var 702. Þá er Hofsá í Vopnafirði komin í 620 laxa en endaði í fyrra með 697.

Svalbarðsá fellur í flokk með Selá og er komin yfir heildarveiði síðasta árs, en Svalbarðsá hefur verið lífleg í sumar. Sama má segja um Deildará og neðri hluta Skjálfandafljóts, en bæði veiðisvæðin eru komin yfir heildarveiði síðasta árs.

Árnar á suðvesturlandi hafa tekið nokkurn kipp eftir að fór að rigna en það er of lítið og of seint. Ljóst er að veiði ársins 2019 í mörgum þessara áa verður viðmiðið í framtíðinni fyrir lélegasta sumar frá því að skráningar hófust.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert