Sjaldgæfir atburðir í laxveiðinni

Stefán Kristjánsson með 99 sentímetra hæng. Þetta er lengd sem ...
Stefán Kristjánsson með 99 sentímetra hæng. Þetta er lengd sem varla sést í veiðibókum lengur. En þessi fiskur er ekki undir tuttugu pundum. Ljósmynd/Aðsend

Í því erfiða sumri sem laxveiðimenn hafa upplifað á Vesturlandi er ekki algengt að menn hafi lent í raðveiði. Nú þegar loksins er komið vatn í Borgarfjarðarárnar er stutt í ævintýrin. Þeir Ingólfur Ásgeirsson, Jóhannes Hinriksson og Bjarki Már Jóhannsson lentu í skemmtilegri veiði í Klapparfljóti í Þverá. Jóhannes og Bjarki voru að fara í sína jómfrúferð í Þverá.

Fjórði fiskurinn í seríunni sem tók hjá þeim félögum í ...
Fjórði fiskurinn í seríunni sem tók hjá þeim félögum í Klapparfljótinu í Þverá. Bjarki Már var að koma í fyrsta skipti í Þverá. Ljósmynd/JH

Fyrir valinu varð hitch-túba með grænum legg. Fyrstur út í var Bjarki Már og hann setti strax í smálax sem mældist 63 sentímetrar. Næstu bunu tók Jóhannes og hann setti líka strax í fisk á sömu flugu. Hann reyndist 78 sentímetrar. Þriðju ferðina fór Ingólfur Ásgeirsson og hann landaði 87 sentímetra fiski. Aftur tók Bjarki stöngina og mjög fljótlega setti hann í fjórða laxinn. Það var afskaplega fallegur 95 sentímetra hængur.

Jóhannes með fallegan fisk úr raðveiðiseríunni í Klapparfljóti í Þverá.
Jóhannes með fallegan fisk úr raðveiðiseríunni í Klapparfljóti í Þverá. Ljósmynd/BMJ

„Þetta gerðist allt á rúmum hálftíma,“ sagði Jóhannes í samtali við Sporðaköst. Hann bætti við að þetta hefði verið mögnuð upplifun því þeir félagar hefðu ekki búist við miklu.

Hitch túban sem gaf þessa mögnuðu veiði í Þverá í ...
Hitch túban sem gaf þessa mögnuðu veiði í Þverá í gær. Ljósmynd/BMJ

Sjaldgæfasta lengdin

Stefán Kristjánsson leiðsögumaður landaði afskaplega sjaldgæfum fiski í Víðidalsá í gærkvöldi. Fiskurinn mældist 99 sentímetrar og er það lengd sem varla sést í veiðibókum lengur. „Hann var svakalega flottur,“ sagði Stefán í samtali við Sporðaköst. „Hann var líka svo þykkur og litirnir ótrúlega flottir.“

Fiskurinn tók hjá Stefáni í veiðistað sem heitir Spegill og er rétt ofan við Dalsárós. Fiskurinn tók alveg niðri á broti í því sem átti að vera síðasta kast kvöldsins.

Þrátt fyrir að þessi fiskur nái ekki hundrað sentímetra markinu er ljóst að hann er ekki undir tíu kílóum, eða tuttugu pundum.

Hollið sem lauk veiðum í Víðidalsá á hádegi í dag var með samtals átján laxa.

mbl.is