Laxinn mætti á mánudag

Erlend veiðikona með fyrsta lax sumarsins úr Sandá. Þessi veiddist ...
Erlend veiðikona með fyrsta lax sumarsins úr Sandá. Þessi veiddist á mánudag og þá fór allt í gang. Þetta er maríulaxinn hennar. Ljósmynd/SHJ

Sandá í Þjórsárdal er ein af hliðarám Þjórsár. Hún er dæmigerð síðsumarsá og iðulega fer ekki að veiðast í henni fyrr en í september. Síðasta vika í Sandá var frábær, að sögn Sindra Hlíðars Jónssonar leiðsögumanns sem hefur verið við ána undanfarna daga.

„Þetta gerðist bara á mánudag. Með hækkandi vatni fór fullt af fiski að ganga og allt í einu voru fiskar á öllum veiðistöðum,“ sagði Sindri í samtali við Sporðaköst.

Annar maríulax úr Sandá. Veiðimaður er Eric Hanson.
Annar maríulax úr Sandá. Veiðimaður er Eric Hanson. Ljósmynd/SHJ

Sandá er tveggja stanga á og drjúg löng. Veiðin hefur að meðaltali verið fimm laxar á dag frá því að hann mætti. „Við höfum verið að taka þetta mest á Collie Dog og Sunray túbur í yfirborðinu. Við höfum líka séð að mikið er af fiski á hreyfingu milli hylja.“ Sindri Hlíðar og Birkir Már Harðarson hafa verið í leiðsögn þessa viku.

Birkir Már Harðarson leiðsögumaður og David Zamos, með enn einn ...
Birkir Már Harðarson leiðsögumaður og David Zamos, með enn einn maríulaxinn. Ljósmynd/SHJ

Töluvert hefur komið af maríulöxum og erlend veiðikona landaði fyrsta laxinum í Sandá í sumar síðastliðinn mánudag og var það maríulaxinn hennar. Ríflega þrjátíu laxar eru skráðir í veiðibókina. Veitt er í Sandá út september.

Fossá er einnig ein af hliðarám Þjórsár og þaðan er svipaða sögu að segja. Þar hefur verið góð veiði upp á síðkastið og töluvert af fiski er í ánni. Báðar þessar ár eiga það sameiginlegt að umhverfið er hrikalegt og fagurt í senn.

Sindri Hlíðar leiðsögumaður með fallegan 73 sentímetra fisk úr Sandá.
Sindri Hlíðar leiðsögumaður með fallegan 73 sentímetra fisk úr Sandá. Ljósmynd/BMH
mbl.is