Lélegu laxveiðisumri að ljúka

Landsliðskokkurinn Axel Björn Clausen með einn stærsta lax sem veiðst …
Landsliðskokkurinn Axel Björn Clausen með einn stærsta lax sem veiðst hefur í Víðidalsá í sumar. 104 sentímetrar og tók í Dalsárósi. Ljósmynd/JH

Það liggur fyrir að sumarið 2019 fer í flokk lökustu laxveiðiára á þessari öld og þó leitað væri lengra aftur. Vatnsleysi og fiskleysi gerðu þetta ár mjög erfitt og var veiði víða léleg miðað við það sem menn þekkja í eðlilegu árferði.

Lokatölur í laxveiðiánum eru að birtast. Flestar af ánum eru þegar búnar að gefa upp lokatölur en klakveiði er enn stunduð í nokkrum ám. Rangárnar eru opnar lengur og er veitt þar fram í október, enda um að ræða hafbeitarár þar sem ekki er stólað á hrygningu laxa sem ganga í árnar. Það er Landssamband veiðifélaga sem heldur utan um tölurnar og birtast þær á angling.is.

Eystri-Rangá er komin í 2.899 laxa og er aflahæst. Miðfjarðará endar sem aflahæsta náttúrulega laxveiðiáin. 

Miðfjarðará endaði í 1.606 löxum sem er nokkru minna en í fyrra en sambærilegt við lélegu árin 2012 og 2014 þegar áin endaði með svipaða tölu.

Ytri-Rangá er að nálgast sextán hundruð fiska og ljóst að hún endar í öðru sæti. Selá í Vopnafirði hefur birt lokatölur og endaði hún í 1.484 löxum sem er aðeins betri veiði en í fyrra. Er þetta besta veiði í Selá frá árinu 2013.

Þverá/Kjarrá var ekki komin með lokatölur í morgun en síðasta tala þar var 1.132 laxar og hefur ekki verið svona slök frá erfiðu árunum 2012 og 2014.

Laxi landað í Rauðhyl í Selá í sumar. Selá var …
Laxi landað í Rauðhyl í Selá í sumar. Selá var betri í sumar en undanfarin ár. Norð-austurland var undantekning því þar var veiði ágæt og mun betri í sumum ám, en í fyrra. Ljósmynd/IH

Laxá á Ásum endaði í 807 löxum og það töluvert betri veiði en í fyrra þegar áin skilaði 702 löxum. Urriðafoss í Þjórsá var lokað með 747 laxa og það mun lélegra en í fyrra þegar svæðið var með 1.320 laxa. Þetta er hins vegar einungis þriðja árið þar sem stangaveiði er stunduð í Þjórsá og er þetta ár sambærilegt við fyrsta árið, 2017 þegar veiddust 755 laxar.

Hofsá og Sunnudalsá í Vopnafirði enda á svipuðu róli og í fyrra. Lokatalan nú er 711 laxar en var 697 í fyrra. Þetta er besta veiði í Hofsá frá árinu 2013.

Laxá í Dölum er skammt undan með 695 laxa en þar er veitt aðeins lengur og ekki komnar lokatölur. Laxá í Aðaldal hefur birt lokatölur og endaði áin í 501 laxi. Þetta er lakasta veiði í Laxá frá árinu 2012 og annað lakasta ár frá því að angling.is byrjaði að taka saman tölur yfir veiði í ánni, árið 1975.

Enn eiga eftir að berast lokatölur úr nokkrum ám. En athygli vekur lokatalan í Straumfjarðará sem er 169 laxar og þarf að fara aftur til ársins 1987 til að finna minni veiði.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert