Flottir fiskar í kaldri opnun

Jóhannes Hinriksson með urriðan sem vigtaði 7,6 kíló og mældist …
Jóhannes Hinriksson með urriðan sem vigtaði 7,6 kíló og mældist 81 sentímetri á lengd og 52 í ummál. Ljósmynd/Aðsend

Þegar eru komnir nokkrir flottir fiskar á land hjá þeim veiðimönnum sem eru við veiðar á opnunardegi sjóbirtingsánna víða um land. Sá fiskur sem mesta athygli hefur vakið í opnunarhollunum er 7,6 kílóa staðbundinn urriði sem veiddist í Ytri-Rangá. Svakalegur fiskur og þykkur.

Það var Jóhannes Hinriksson sem setti í og landaði urriðanum ofan þjóðvegsbrúar þar sem Ytri-Rangá rennur í gegnum Hellu. „Ég ákvað að taka Black Ghost í gegnum neðsta hlutann á hylnum, eftir að strákarnir voru búnir að kasta. Þetta var klassískur Black Ghost með gúmmífálmurum. Einkrækja og ég dró mjög hægt. Þessi urriði negldi fluguna og viðureignin var mögnuð,“ sagði Jóhannes í samtali við Sporðaköst.

Þessi urriði er búinn að taka nokkra slagina í Ytri …
Þessi urriði er búinn að taka nokkra slagina í Ytri - Rangá. Það sést best á sporðinum. Ljósmynd/Aðsend

Þessi magnaði urriði vigtaði 7,6 kíló og er með þeim stærri sem veiðst hafa seinni ár í Ytri-Rangá. Lengdin var 81 sentímetri og ummál 52. Spikfeitur urriði og honum var sleppt. Einnig voru nokkrir sjóbirtingar veiddir og almennt voru menn sáttir við fyrstu klukkutímana í veiði þótt kalsasamt væri.

Eldvatnið opnað

Einn þeirra sem opnuðu Eldvatnið í Meðallandi var Ríkarður Hjálmarsson. „Það var kalt, en meira gaman en kalt,“ sagði Ríkarður í samtali við Sporðaköst. Hann setti í og landaði fallegum sjóbirtingi. Þetta var 76 sentímetra fiskur og í ótrúlega góðum holdum að því er Ríkarður sagði og má raunar sjá það á myndinni sem fylgir fréttinni. Fiskurinn var óvenju bjartur miðað við stærð og tímasetningu. „Vonandi veit þetta á gott hér í Eldvatninu,“ sagði Ríkarður að lokum.

Ríkarður með fyrsta sjóbirtinginn sem veiddist í Eldvatni í Meðallandi …
Ríkarður með fyrsta sjóbirtinginn sem veiddist í Eldvatni í Meðallandi í vor. Honum var sleppt. Ljósmynd/ES

Þessum birtingi var sleppt eins öllum öðrum á því vatnasvæði. Erlingur Hannesson og félagi hans voru búnir að landa hvor sínum birtingnum að sögn Ríkarðs. En dagurinn er rétt að byrja.

Covid-opnanir

Víða hafa menn brugðið á það ráð að skipta opnunum í tvennt til að tryggja tveggja metra regluna. Sumar ár voru opnaðar aðeins fyrr í samráði við landeigendur og dagar þá felldir út á móti. Markmiðið er að vera með færri menn í húsi þannig að hægt sé að sitja við borð á matmálstímum með góðu millibili. Þá eru dæmi um að settar hafi verið sérstakar þrifareglur vegna kórónuveirunnar. Sprittbrúsar eru líka í flestum veiðihúsum sem Sporðaköst hafa rætt við í morgun. „Menn taka þetta alvarlega og þó svo að fjarlægðin sé tryggð við sjálfar veiðarnar þá koma menn í hús og þar þarf að vanda sig til þess að fara að þeim tilmælum sem sett hafa verið fram,“ sagði Erlingur Hannesson, einn leigutaka Eldvatnsins, í samtali við Sporðaköst.

Stefán Sigurðsson með fyrsta sjóbirtinginn úr Leirá í morgun.
Stefán Sigurðsson með fyrsta sjóbirtinginn úr Leirá í morgun. Ljósmynd/Harpa

Magnaður morgun í Leirá

Hjónin og leigutakar að Leirá, Stefán Sigurðsson og Harpa HlínÞórðardóttir lönduðu fyrstu bitingunum í Leirá í morgun. Aðstæður voru kalsasamar og krefjandi. Áin var vatnsmikil en engu að síður var sett í fallega fiska og þeim landað og sleppt. Leirá er skammt frá Laxá í Leirársveit.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert