Flottir fiskar í kaldri opnun

Jóhannes Hinriksson með urriðan sem vigtaði 7,6 kíló og mældist …
Jóhannes Hinriksson með urriðan sem vigtaði 7,6 kíló og mældist 81 sentímetri á lengd og 52 í ummál. Ljósmynd/Aðsend

Þegar eru komnir nokkrir flottir fiskar á land hjá þeim veiðimönnum sem eru við veiðar á opnunardegi sjóbirtingsánna víða um land. Sá fiskur sem mesta athygli hefur vakið í opnunarhollunum er 7,6 kílóa staðbundinn urriði sem veiddist í Ytri-Rangá. Svakalegur fiskur og þykkur.

Það var Jóhannes Hinriksson sem setti í og landaði urriðanum ofan þjóðvegsbrúar þar sem Ytri-Rangá rennur í gegnum Hellu. „Ég ákvað að taka Black Ghost í gegnum neðsta hlutann á hylnum, eftir að strákarnir voru búnir að kasta. Þetta var klassískur Black Ghost með gúmmífálmurum. Einkrækja og ég dró mjög hægt. Þessi urriði negldi fluguna og viðureignin var mögnuð,“ sagði Jóhannes í samtali við Sporðaköst.

Þessi urriði er búinn að taka nokkra slagina í Ytri …
Þessi urriði er búinn að taka nokkra slagina í Ytri - Rangá. Það sést best á sporðinum. Ljósmynd/Aðsend

Þessi magnaði urriði vigtaði 7,6 kíló og er með þeim stærri sem veiðst hafa seinni ár í Ytri-Rangá. Lengdin var 81 sentímetri og ummál 52. Spikfeitur urriði og honum var sleppt. Einnig voru nokkrir sjóbirtingar veiddir og almennt voru menn sáttir við fyrstu klukkutímana í veiði þótt kalsasamt væri.

Eldvatnið opnað

Einn þeirra sem opnuðu Eldvatnið í Meðallandi var Ríkarður Hjálmarsson. „Það var kalt, en meira gaman en kalt,“ sagði Ríkarður í samtali við Sporðaköst. Hann setti í og landaði fallegum sjóbirtingi. Þetta var 76 sentímetra fiskur og í ótrúlega góðum holdum að því er Ríkarður sagði og má raunar sjá það á myndinni sem fylgir fréttinni. Fiskurinn var óvenju bjartur miðað við stærð og tímasetningu. „Vonandi veit þetta á gott hér í Eldvatninu,“ sagði Ríkarður að lokum.

Ríkarður með fyrsta sjóbirtinginn sem veiddist í Eldvatni í Meðallandi …
Ríkarður með fyrsta sjóbirtinginn sem veiddist í Eldvatni í Meðallandi í vor. Honum var sleppt. Ljósmynd/ES

Þessum birtingi var sleppt eins öllum öðrum á því vatnasvæði. Erlingur Hannesson og félagi hans voru búnir að landa hvor sínum birtingnum að sögn Ríkarðs. En dagurinn er rétt að byrja.

Covid-opnanir

Víða hafa menn brugðið á það ráð að skipta opnunum í tvennt til að tryggja tveggja metra regluna. Sumar ár voru opnaðar aðeins fyrr í samráði við landeigendur og dagar þá felldir út á móti. Markmiðið er að vera með færri menn í húsi þannig að hægt sé að sitja við borð á matmálstímum með góðu millibili. Þá eru dæmi um að settar hafi verið sérstakar þrifareglur vegna kórónuveirunnar. Sprittbrúsar eru líka í flestum veiðihúsum sem Sporðaköst hafa rætt við í morgun. „Menn taka þetta alvarlega og þó svo að fjarlægðin sé tryggð við sjálfar veiðarnar þá koma menn í hús og þar þarf að vanda sig til þess að fara að þeim tilmælum sem sett hafa verið fram,“ sagði Erlingur Hannesson, einn leigutaka Eldvatnsins, í samtali við Sporðaköst.

Stefán Sigurðsson með fyrsta sjóbirtinginn úr Leirá í morgun.
Stefán Sigurðsson með fyrsta sjóbirtinginn úr Leirá í morgun. Ljósmynd/Harpa

Magnaður morgun í Leirá

Hjónin og leigutakar að Leirá, Stefán Sigurðsson og Harpa HlínÞórðardóttir lönduðu fyrstu bitingunum í Leirá í morgun. Aðstæður voru kalsasamar og krefjandi. Áin var vatnsmikil en engu að síður var sett í fallega fiska og þeim landað og sleppt. Leirá er skammt frá Laxá í Leirársveit.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.
100 cm Blanda Neil Boyd 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jörgensen 4. júlí 4.7.

Skoða meira