Lentu í ævintýralegu moki í Tungulæk

Teddi með flottan birting úr Tungulæk. Þeir félagar eru búnir …
Teddi með flottan birting úr Tungulæk. Þeir félagar eru búnir að vera í ævintýralegri veiði. Ljósmynd/Aðsend

Theodór K. Erlingsson og Hafþór Hallsson félagi hans eru búnir að vera í ævintýralegu moki í Tungulæk frá því að þeir hófu veiði á hádegi á föstudag. Það er greinilegt að mjög mikið er af fiski í læknum og hann er að taka.

„Þetta er búið að vera rosalegt. Við erum að setja í hann í nánast hverju kasti,“ sagði Teddi í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi. „Þetta er mest neðarlega og nálægt ósnum en samt er bara fiskur um allt. Veðrið er helsti áhrifavaldurinn í þessu en við erum ýmsu vanir að vestan,“ hlær Teddi sem á ættir að rekja til Vestfjarða.

Þetta er algeng sjón í Tungulæk.
Þetta er algeng sjón í Tungulæk. Ljósmynd/Teddi

„Þetta snýst ekki um veðrið. Þetta snýst um hugarfar. Ef þú vilt vera að spá í hversu kalt er þá ferðu bara upp í hús að grenja,“ sagði Teddi og hló. Hann viðurkennir að það þurfi að hafa vettlinga til skiptanna. „Ef þú ert með blauta vettlinga er þetta búið.“

Á fyrri vaktinni, sem var seinnipart föstudags, fengu þeir félagar 48 sjóbirtinga. Í gær lönduðu þeir samtals 46 þannig að þetta er búið að vera algert ævintýri hjá þeim.

Enn einn birtingurinn dreginn á land. Öllum fiski er sleppt …
Enn einn birtingurinn dreginn á land. Öllum fiski er sleppt í Tungulæk. Ljósmynd/Teddi

Í hvaða standi er fiskurinn?

„Hann er bara ótrúlega flottur. Auðvitað eru slápar innan um en við erum mest að setja í 75 til 80 sentímetra fiska. Hér áður var algengt að mikið væri af 40 sentímetra puttum en við verðum lítið varir við þá.

Ég er búinn að veiða hérna í tólf ár í beit og þetta vor lítur einstaklega vel út,“ sagði Teddi í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi.

Þeir eru að veiða þungt félagarnir og það eru sökktaumar og keilur sem gefa veiðina.

Þeir félagar hugsa sér gott til glóðarinnar í dag og ætla að fara á fullt í birtinginn. Þeir eru komnir með 94 fiska og langar að ná hundrað.

Uppfært

Eins Tungulækurinn var veiðilegur í gær þá blasti við allt önnur mynd í morgunsárið. Þessa mynd tók Teddi þegar aðstæður voru skoðaðar í morgun. Þetta er Réttarhylur og hann var einfaldlega lokaður af krapa og snjó.

Gerbreytt staða blasti við veiðimönnum í morgun í Tungulæk.
Gerbreytt staða blasti við veiðimönnum í morgun í Tungulæk. Ljósmynd/Teddi
mbl.is