Mótmæla rýmkun Hafró á áhættumati

Gunnlaugur Stefánsson fyrrverandi prestur er formaður stjórnar Veiðifélags Breiðdæla. Félagið …
Gunnlaugur Stefánsson fyrrverandi prestur er formaður stjórnar Veiðifélags Breiðdæla. Félagið hefur látið til sín taka í baráttunni gegn laxeldi í opnum sjókvíum. Ljósmynd/Aðsend

Veiðifélag Breiðdæla mótmælir harðlega breyttu áhættumati Hafrannsóknastofnunar á laxeldi í opnum sjókvíum á Austfjörðum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórn veiðifélagsins ályktar gegn laxeldi í opnum sjókvíum. Hér að neðan er ályktunin í heild sinni.

„Stjórn Veiðifélags Breiðdæla mótmælir harðlega fyrirhugaðri rýmkun á áhættumati Hafrannsóknastofnunar á eldi með norskum laxi í opnum sjókvíum á Austfjörðum. Það mun ógna enn frekar tilvist villtra laxastofna. Reynslan af eldinu er nú þegar vond, þar sem sjúkdómar herja og alvarleg áföll vegna veðurs og slysasleppinga. Þá er þetta þvert á þróunina í nágrannalöndum, t.d. í Kanada, þar sem stefnt er á að leggja af sjókvíaeldi á laxi, og í Skotlandi og Noregi er útgáfa nýrra sjókvíaeldisleyfa í uppnámi vegna hrikalegrar reynslu fyrir villta stofna og lífríkið. Engar nýjar forsendur eða rannsóknir liggja fyrir sem réttlæta eldisaukningu. Hér virðist taumlaus græðgi norskra eldisrisa í íslenskar auðlindir ráða för. Stjórnin skorar á Hafrannsóknastofnun að endurskoða tillögu sína, draga úr eldinu fremur en að auka og vernda íslenska náttúru í stað þess að skaða. Stjórn Veiðifélags Breiðdæla.“

mbl.is