Bjóða 50% afslátt af veiðileyfum

Reykjadalsá fyrir norðan er fyrst og fremst þekkt fyrir skemmtilega …
Reykjadalsá fyrir norðan er fyrst og fremst þekkt fyrir skemmtilega urriðaveiði. Ljósmynd/Aðsend

Veiðifélag Eyvindarlækjar og Reykjadalsár í Reykjadal og leigutakar hafa tekið höndum saman og ákveðið að lækka verðið í sumar á veiðileyfum í Reykjadalsánni um nærri 50%.

„Við gerum þetta í tilefni átaksins Ferðumst innanlands. Verður dagstöngin í júní seld á 12.500 krónur og sex stangir seldar saman í þrjá daga eða lengur. Í júlí og ágúst verður verð fyrir dagstöngina 15.500 krónur og sex stangir seldar saman í 3 daga eða lengur,“ sagði Björn K. Rúnarsson, annar forsvarsmanna leigutaka. Björn og Pétur Pétursson, kenndur við Vatnsdal, hafa verið með ána á leigu frá árinu 2003.

Er þetta það sem koma skal í veiðinni í sumar?

Björn dregur það mjög í efa og býst ekki við öðru en að hinir ýmsu leigutakar muni horfa á þá viðskiptavini á Íslandi sem hafa lengi verslað við viðkomandi félög. „Annars er óvissan svo mikil í þessu öllu enn að það er eiginlega lítið hægt að segja. Við vonum það besta en búum okkur undir margvíslegar sviðsmyndir. En við áttum mjög gott samtal við stjórn veiðifélagsins með Reykjadalsá og Eyvindarlækinn. Við byrjum á þessu svona og vonandi verður mikill áhugi á þessu.

Þegar líður á sumarið er góð laxavon í Reykjadalsá. Hér …
Þegar líður á sumarið er góð laxavon í Reykjadalsá. Hér er veiðimaður með fallegan lax úr henni. Ljósmynd/Aðsend

Inni í þessu verði er glæsilegt veiðihús, fjögur herbergi með sturtu og klósetti í hverju og einu herbergi. Svo er stórt svefnloft, heitur pottur og góð verönd,“ sagði Björn í samtali við Sporðaköst í morgun.

Reykjadalsá er um 35 kílómetra löng á sem rennur um Reykjadal í Þingeyjarsveit. Hún fellur í Vestmannsvatn og Eyvindarlækur rennur svo úr vatninu og tengist Laxá í Aðaldal. Góð silungsveiði er í ánni og mikil laxavon þegar líða fer á tímabilið. „Fátt er skemmtilegra en að vera þarna og veiða urriða á þurrflugu eins og margir útlendingar hafa kallað ána „dry fly heaven,““ sagði Björn. 

Áhugasömum má benda á netföngin petur@vatnsdalsa.is og bjorn@vatnsdalsa.is

mbl.is

Bloggað um fréttina