Kakó, brotinn krókur og mokveiði

Baldur Guðmundsson með 68 sentimetra hrygnuna úr Immubakka.
Baldur Guðmundsson með 68 sentimetra hrygnuna úr Immubakka. Ljósmynd/Aðsend

Baldur Guðmundsson, leiðsögumaður með meiru, var að koma úr fyrsta alvöruvorveiðitúr sínum. Sporðaköst báðu hann um að taka saman frásögn af veiðiferðinni. Gefum Baldri orðið:

„Ég var að koma úr Húseyjarkvísl þar sem ég fór í minn fyrsta sjóbirtingstúr að vori, ef frá er talinn einn dagur erfiður í sömu á fyrir fáeinum árum. Áin var að ryðja sig neðan við þjóðvegsbrú um helgina. Við veiddum nokkra fiska á okkar fyrstu vakt á sunnudeginum. Á mánudaginn gerði sunnanhvassviðri með hlýindum. Áin fór í kakó strax fyrir hádegi og fór úr rúmum fimm rúmmetrum í 32 yfir daginn.

Spegilbjartir og vel haldnir sjóbirtingar. Baldur telur að þeim líði …
Spegilbjartir og vel haldnir sjóbirtingar. Baldur telur að þeim líði vel í Skagafirðinum. Ljósmynd/BG

Tíu fiskar á púpur

Það var lítið veitt þann daginn, en öðrum áhugamálum sinnt af kostgæfni. Á þriðjudaginn hafði kólnað nokkuð og áin var hæfilega skoluð að morgni, þótt það væri á köflum varla stætt í rokinu. Það er skemmst frá því að segja að dagurinn var frábær.

Eftir rólega byrjun ákvað ég að skipta úr straumflugum yfir í púpur. Það borgað sig því ég landaði 10 fiskum á púpur yfir daginn; átta fallegum sjóbirtingum og tveimur staðbundnum urriðum. Þrír þessara fiska voru yfir 65 sm. Sá lengsti var 76 sentimetrar en fallegasti fiskurinn minn var 68 sentimetra hrygna sem var 48 sm í ummál. Nánast eins og nýrunninn fiskur að hausti.

Veður var rysjótt en veiðin var góð þegar aðstæður bötnuðu.
Veður var rysjótt en veiðin var góð þegar aðstæður bötnuðu. Ljósmynd/BG

Líður vel í Skagafirðinum

Sá stærsti sem kom á land í hollinu var 81 sentimetri. Fiskarnir voru margir mjög vel haldnir og höfðu ekki yfirbragð vorfiska. Sumir þeirra voru með hornsíli í kjaftinum og líður greinilega vel í Skagafirðinum.

Við veiddum ekki ósinn og neðsta hluta árinnar en við urðum varir við fisk nánast á öllum veiðistöðum sem við prófuðum, frá veiðistað 5 niður í 20. Á morgunvaktinni á miðvikudaginn var áin orðin tær og veður kalt en ágætt.

Við félagi minn urðum varir við væna fiska í veiðistað 9 og fengum báðir tökur. Fyrsta takan sem ég fékk var ansi hraustleg og augljóslega vænn fiskur á ferð. Ég kastaði í góðan hálftíma í viðbót og fékk tvær til þrjár snarpar tökur í viðbót. En mér gekk illa að halda fiski. Það var ekki fyrr en ég kom í næsta veiðistað sem það rann upp fyrir mér að stóri fiskurinn hafði brotið krókinn af flugunni. Það var þess vegna ekkert skrýtið að ég skyldi ekki landa fiski.

Daginn kláruðum við í veiðistað 19 þar sem við Ásgeir Jónsson, veiðifélagi minn og vinur, tókum þrjá flotta fiska á um klukkutíma. Frábær túr í kvíslinni að baki. Þangað fer ég aftur.“

mbl.is