Laxárfélagið hættir með Laxá í Aðaldal

Systkinin frá Laxamýri, Jón Helgi Björnsson og Halla Bergþóra Björnsdóttir, …
Systkinin frá Laxamýri, Jón Helgi Björnsson og Halla Bergþóra Björnsdóttir, með fyrsta lax sumarsins á svæðum Laxárfélagsins í Aðaldal 2017. Hann var 87 cm langur og tók Laxá blá-túbu í Bjargstreng. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Laxárfélagið, sem hefur haft Laxá í Aðaldal á leigu í áttatíu ár mun ekki framlengja samning sinn eftir sumarið í sumar. Lýkur þar með þessu lengsta viðskiptasambandi um leigu á laxveiðiá á Íslandi. Laxárfélagið er samansett úr þremur deildum. Ein á Akureyri, önnur á Húsavík og sú þriðja í Reykjavík. Nú hefur félagið greint Veiðifélagi Laxár í Aðaldal frá því að samningurinn verði ekki endurnýjaður eftir sumarið.

Þetta staðfesti Jón Helgi Björnsson, formaður veiðifélagsins í samtali við Sporðaköst. „Þetta er náttúrulega ekki óskatíminn til að standa í svona breytingum þegar óvissa í þjóðfélaginu er svo mikil. Laxá mun hins vegar áfram renna og lax mun áfram ganga í hana og menn vilja áfram veiða í henni og þetta mun allt finna sér einhvern farveg.

Svæðið neðan við Æðarfossa í Laxá í Aðaldal er eitt …
Svæðið neðan við Æðarfossa í Laxá í Aðaldal er eitt það fegursta sem menn þekkja. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

En það eru komin formleg skilaboð frá Laxárfélaginu að þeir hyggjast ekki halda áfram. Þannig að þetta er sú staða sem blasir við eftir sumarið, og auðvitað er þetta ekki óskatíminn til að skipta um leigutaka,“ sagði Jón Helgi Björnsson.

Samstarf við Árnes? Eða útboð? Eða...?

Við höfum heyrt af hugmyndum um sameiningu veiðisvæða við Árnes og fleiri jarðir og fækka jafnvel stöngum og nota Vökuholt fyrir allt svæðið. Er þetta í umræðunni?

„Það eru alls konar bollaleggingar hjá mönnum. Fyrst er að klára þennan viðskilnað Laxárfélagsins og svo fara menn að vinna í framtíðinni. Við erum að ræða alla möguleika og það er allt opið í þeim efnum.

Það eru margvíslegar hugmyndir sem munu koma til skoðunar en ekkert hefur verið ákveðið. Það sem við stöndum hins vegar frammi fyrir er að þetta þarf að liggja fyrir í haust, hvert framhaldið verður, sérstaklega upp á sölu fyrir sumarið 2021.“

Jóhann Hafnfjörð Rafnsson með enn einn 104 sentímetra fiskinn úr …
Jóhann Hafnfjörð Rafnsson með enn einn 104 sentímetra fiskinn úr Laxá í Aðaldal. Hann veiddist á stórlaxasvæðinu í Nesi og veiðistaðurinn heitir Beygjan. Ein af þeim hugmyndum sem ræddar eru er samstarf við Nesveiðar. Ljósmynd/Aðsend

Kemur til greina að bjóða svæðið út í óbreyttri mynd?

„Já. Það kemur til greina. Það er allt til skoðunar, en ég ítreka það hafa engar ákvarðanir verið teknar.“

Jón Helgi Vigfússon bóndi á Laxamýri staðfesti þetta einnig í samtali við Sporðaköst. „Þetta er ekki góð staða en hefur svo sem legið fyrir að til þessa gæti komið. Félagið hefur verið að eldast og ekki tekist kannski sem skyldi að ná þar fram endurnýjun. 

Sumarið í sumar verður með óbreyttu sniði en svo rennur þessi samningur út í haust. Ég treysti mér ekki til að segja til um framhaldið og engin ákvörðun verið tekin,“ sagði Jón Helgi Vigfússon í samtali við Sporðaköst.

Það sem mögulega flækir þessa stöðu er sú staðreynd að Laxárfélagið sem hefur haft Laxá á leigu, á veiðihúsið Vökuholt. Jón Helgi segir að það mál þurfi að tækla með einhverjum hætti en hann treysti sér ekki til að segja eitthvað meira á þessari stundu.

Veiði í Laxá Aðaldal hefur verið hnignandi og ljóst að áin er langt frá því sem var þegar hún var upp á sitt besta.

Heyra mátti á nokkrum af fjölmörgum viðmælendum Sporðakasta í dag og í gær að margir telja að fráfall Orra Vigfússonar hafi mögulega markað upphafið að þessum endalokum sem nú eru staðfest. Orri var mjög ötull í sínu starfi fyrir Laxá og seldi mikið af veiðileyfum.

mbl.is