Koma erlendir veiðimenn?

Breskir veiðifélagar gleðjast innilega yfir fallegum nýrenningi sem þeir veiddu …
Breskir veiðifélagar gleðjast innilega yfir fallegum nýrenningi sem þeir veiddu í Þverá í Borgarfirði. Nú velta margir fyrir sér hversu margir erlendir stangveiðimenn sæki landið heim í sumar. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Þrátt fyrir að búið sé að opna fyrir það að erlendir stangveiðimenn geti komið til landsins eftir miðjan júní er alls ekki ljóst hvort þeir séu yfirhöfuð spenntir fyrir því vegna kórónuveirufaraldursins og aðstæðna sem honum tengjast heima fyrir. Það er því mörgum spurningum ósvarað og margt óljóst um tilhögun við veiðiárnar í sumar en eins og vitað er þá veiða erlendir veiðimenn iðulega á besta og dýrasta veiðitímanum í laxveiðiánum og eru jafnframt kaupendur að þjónustu sem veitir fjölda fólks atvinnu, hvort sem er í veiðihúsunum, við leiðsögn við árnar eða við flutning fólks til og frá veiðisvæðum.

Veiðileyfasalar og leigutakar sem rætt er við benda á að með því að opna landið hafi stjórnvöld létt þeirri skyldu af seljendum veiðileyfa hér að þurfa að endurgreiða seld leyfi og þjónustu. Landið verði opið veiðimönnum, hvort sem þeir komist til veiða eða ekki. Það kann að vera erfitt að fá flug til landsins og þá kynnu þeir að þurfa að fara í sóttkví þegar þeir snúa heim.

Leigutakar virðast hafa afskrifað það að erlendir veiðimenn komi til veiða í júnímánuði eða byrjun júlí, þótt veiði hefjist að vanda í hverri ánni á fætur annarri þegar líður á mánuðinn. Hins vegar vonast þeir til að einhverjir láti sjá sig eftir það og njóti þess að gleyma veirunni á góðum stundum úti í náttúrunni.

Þarf að „verja vöruna“

Haraldur Eiríksson hefur áralanga reynslu af sölu veiðileyfa til erlendra veiðimanna og þekkir stöðuna öðrum betur. Þegar hann er spurður að því hvort erlendir veiðimenn muni láta sjá sig við árnar í sumar segir hann enn ekki vera hægt að svara því.

„Það er mjög erfitt að fara inn í sumarið með þá óvissu, hvort erlendir veiðimenn sem keypt hafa hér leyfi eða bókað daga séu yfirhöfuð að koma eða ekki. Það verður að vera vitað með sem bestum fyrirvara. Innan skamms verður að krefjast svara, hvort fólk ætli að láta á það reyna eða ekki, en það er spurning sem hvorki ég né aðrir geta svarað vegna margra óvissuþátta. Það eina sem við getum gert er að miðla áfram upplýsingum eftir því sem þær berast að því er varðar flugsamgöngur og með hvaða hætti á að hleypa fólki inn í landið. Hafa verður í huga að langstærsti viðskiptamannahópurinn kemur frá Bretlandi, þar sem ástandið er hvað verst um þessar mundir. Framvinda mála þar í landi skiptir því miklu máli.“

En hvað ef fólkið treysir sér ekki til að koma til veiða?

Haraldur svarar að eflaust verði þá reynt að selja hluta veiðileyfanna á innlendum markaði en það liggi í hlutarins eðli að ekki sé innanlandsmarkaður fyrir öll þessi leyfi. „Markmiðið verður eflaust líka að verja vöruna með sem bestum hætti til framtíðar,“ segir hann og á við að ekki sé hægt að raska verðuppbyggingu leyfa á veiðisvæðunum með því að setja dýr leyfi á útsölu. Það hafa nú þegar verið seldir jaðartímar til innlendra veiðimanna. Það að fara með dýru vöruna inn á markaðinn með afslætti er því erfitt. „Það hefur enginn leigutaki fjárhagslega burði til að verja vöruna einn, fyrir hönd annarra. Óhjákvæmilega verður því að eiga sér stað samtal milli leigutaka og landeigenda hvað skal gera og ákvörðunartakan sameiginleg.

Haraldur viðurkennir að sjálfur búist hann ekki við því að sjá marga erlenda veiðimenn við árnar í sumar, sérstaklega ekki þá eldri sem oft kaupa dýrustu leyfin.

„Einhverjir munu reyna allt sem þeir geta til að koma en ég held því miður að þeir séu í minnihluta.“

Einn veiðileyfasalinn sem rætt er við býst helst við því að sjá hópa yngri silungsveiðimanna koma til landsins, veiðimenn til að mynda frá Norðurlöndum, Þýskalandi, Sviss og Austurríki, en þeir eldri muni frekar sitja heima enda í meiri áhættuhópi. Þá megi ekki gleyma því að veiran grasseri enn víða og líklega verði fólk skyldað í sóttkví í mörgum löndum fram eftir ári komi það frá öðru landi.

Spá góðum smálaxagöngum

Spá sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar, þeirra Sigurðar Más Einarssonar og Jóhannesar Guðbrandssonar, gladdi veiðiáhugamenn í vikunni. Í pistli á vef stofnunarinnar segja þeir að miðað við yfirborðshita sjávar sumarið 2019 og þau tengsl sem hafa komið fram við laxagengd, séu góðar vísbendingar um að von geti verið á góðum smálaxagöngum í ár á sunnan- og vestanverðu landinu á komandi sumri. Stangveiði á laxi í þessum landshluta er yfirleitt um 40% af heildarveiði náttúrulegra laxastofna á landinu.

Undanfarin ár hefur verið fylgst með yfirborðshita sjávar og skoðuð tengsl hans við laxagengd. Þegar horft er til svæðisins suðvestur af landinu, sem eru göngusvæði laxins úr ám á Vesturlandi, sýni meðalhiti á þessu svæði í júlí góð tengsl við smálaxaveiði á Vesturlandi ári síðar. Í júlí í fyrra var sjórinn á umræddu svæði hlýrri en áður hefur mælst eða að meðaltali 11,75°C og þykir sérfræðingum það gefa góðar vonir um góðar göngur. „Ef gert er ráð fyrir að sama samband haldist þegar hitinn fer svo hátt upp gerir línulegt samband ráð fyrir rúmlega 21 þúsund fiska veiði smálaxa á Vesturlandi 2020,“ segir í pistlinum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira