Fyrstu fiskarnir af Ósasvæðinu í vor

Gunnar Sigurðsson með sjóbirting af Ósasvæðinu. Þessi tók rauða Frances.
Gunnar Sigurðsson með sjóbirting af Ósasvæðinu. Þessi tók rauða Frances. Ljósmynd/Aðsend

Fyrstu sjóbirtingarnir og sjóbleikjurnar veiddust á Ósasvæði Hítarár í dag. Gunnar Sigurðsson og Guðmundur Jóhannsson sáu töluvert magn af fiski. Þeir settu í tólf en lönduðu bara fjórum.

„Við byrjuðum að veiða um klukkan sjö í morgun, það var aðeins farið að falla út þannig að það hefði verið betra að byrja aðeins fyrr. En við sáum töluvert af fiski og þá sérstaklega sjóbleikju og þar af var ein myndarleg torfa,“ sagði Gunnar í samtali við Sporðaköst þegar þeir hættu veiðum síðdegis.

Þeir sáu mikið af sjóbleikju á svæðinu. Þessi mældist 48 …
Þeir sáu mikið af sjóbleikju á svæðinu. Þessi mældist 48 sentimetrar og tók Engjafluguna. Ljósmynd/Aðsend

Þeir lönduðu tveimur birtingum og tveimur bleikjum. „Ég var með of grannan taum og við vorum að missa þessa sterku birtinga. En ég hef ekki veitt þarna fyrr og þetta var hálfgerð tilraunaveiði hjá okkur á þessu svæði en það lítur mjög vel út. Þetta var mjög skemmtilegt og mikið af fiski.“

Veiðin var mest að koma á púpur en þó tók einn sjóbirtingurinn rauðan Frances. Engjaflugan, Gulltoppur og fleiri flugur vöktu athygli bæði bleikju og birtings.

Það var ekki dónalegt veðrið sem þeir fengu. Stilla og …
Það var ekki dónalegt veðrið sem þeir fengu. Stilla og sól í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Eins og við greindum frá í gær er þetta svæði nú loksins orðið aðgengilegt eftir að vegur var lagður að svæðinu. Óheimilt er að keyra með ánni og ber veiðimönnum að leggja bílum sínum við salernisaðstöðu sem reist hefur verið miðsvæðis. Tvær stangir eru á svæðinu og það er um fimm kílómetra langt.

Ekki er kvóti á bleikjunni eða sjóbirtingnum en sömu reglur gilda um lax sem veiðist á Ósasvæðinu eins og í sjálfri Hítaránni.

mbl.is