Eldvatnið og Leirá stóðu upp úr

Sjóbirtingur hreinsar sig á grunnu vatni í Eldvatninu fyrr í …
Sjóbirtingur hreinsar sig á grunnu vatni í Eldvatninu fyrr í mánuðinum. Ljósmynd/Ríkarður Hjálmarsson

Vorveiði á sjóbirtingi er nú lokið víðast hvar. Þessi vertíð, sem hófst 1. apríl og stendur í flestum ám fram undir miðjan maí, einkenndist framan af apríl af vetrarríki. Víða var opnunum frestað og inn á milli voru óveiðanlegir dagar. En það rættist heldur betur úr þessu og þegar upp er staðið var veiðin með hreinum ágætum.

Óhætt er að segja að tvö veiðisvæði hafi vakið mesta athygli. Það er annars vegar Eldvatn í Meðallandi og svo hin netta Leirá í Leirársveit. Eldvatnið hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarin ár enda hefur nú um nokkurt skeið verið lögð áhersla á sleppingar á sjóbirtingi. Það hefur heldur betur skilað sér, bæði í stærð og fjölda. Þannig eru tíu stærstu birtingar vorsins á bilinu 89 til 86 sentimetrar.

Erlingur Hannesson tekst á við kröftugan sjóbirting sem er æstur …
Erlingur Hannesson tekst á við kröftugan sjóbirting sem er æstur í að fara. Ljósmynd/Ríkarður Hjálmarsson

Erlingur Hannesson, einn leigutaka Eldvatnsins, sagði í samtali við Sporðaköst að þetta væri eitt allra besta vorið í Eldvatninu í langan tíma. „Það sem er líka merkilegt er að áin er enn þá full af fiski og síðasta hollið sem var um helgina landaði 36 fiskum. Við höfum í fimm ár verið að hjálpa Eldvatninu þannig að við höfum verið að sleppa nokkru magni af seiðum og þetta er árið sem það átti að fara að skila sér. Ég held að það geti verið virkilega gaman hjá okkur í haust,“ sagði Erlingur. 

Heildarveiðin í ánni er um 280 sjóbirtingar í vor og er það eitt allra besta vorið sem skráð hefur verið í Eldvatni. Þetta er nánast tvöföldun á veiðinni frá því á sama tíma í fyrra.

Harpa Hlín Þórðardóttir með boltabirting úr Leirá í kaldri opnun …
Harpa Hlín Þórðardóttir með boltabirting úr Leirá í kaldri opnun í apríl. Áin kom virkilega á óvart. Ljósmynd/SS

Annar áhugaverður kapítuli í vorveiðinni er Leirá í Leirársveit. Þessa litla tveggja stanga á skammt frá Laxá í Leirársveit. Hjónin Stefán Sigurðsson og Harpa Hlín Þórðardóttir eru með hana á leigu og hafa verið undanfarin ár. Eins og í Eldvatninu var farið í fluguveiði eingöngu og sleppingar. Nú í vor var virkilega mikið af sjóbirtingi í Leirá og það sem meira er hann var virkilega vænn, mun stærri en veiðimenn hafa átt að venjast þar undanfarin ár. Það segir sig sjálft að sjóbirtingur sem er drepinn stækkar ekki meir.

Önnur sjóbirtingssvæði skiluðu líka sínu, eins og Húseyjarkvísl, Ytri-Rangá, Tungulækur og Geirlandsá. Ytri-Rangá vakti athygli fyrir stóra staðbundna urriða í vor sem voru einkar vel haldnir.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.
101 cm Blanda Pétur Pálsson 21. júní 21.6.
101 cm Víðidalsá James Murray 20. júní 20.6.

Skoða meira