Mikil líf í Ásunum - 98 sm úr Miðfirði

Ársæll Þór Bjarnason með hænginn glæsilega sem tók Sunray í …
Ársæll Þór Bjarnason með hænginn glæsilega sem tók Sunray í Laxapolli í Austurá. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsti veiðidagurinn í Laxá á Ásum rann upp í morgun. Áin er vatnsmikil en bongóblíða er á veiðimönnum. Tveir laxar komu á land en víða misstust fiskar og líf var með besta móti. Neðst í Langhyl voru veiðimenn að setja í fiska og fá eltingar.

Tumi og Sauðaneskvörn gáfu laxa í morgun. Nokkurt magn af fiski var að sjá við bílastæðið við Langhyl og sömu sögu er að segja af Mánafossstreng.

Sturla Birgisson með 78 sentímetra fisk úr Sauðaneskvörn í morgun.
Sturla Birgisson með 78 sentímetra fisk úr Sauðaneskvörn í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Sigurðsson, eða Siggi raflax eins og hann er jafnan kallaður fékk fisk í Tuma og var greinilegt að sá fiskur var búinn að vera nokkurn tíma í ánni. Sturla Birgisson rekstraraðili í Ásum giskaði á að þessi fiskur hefði gengið fyrir hálfum mánuði. „Maður hefði viljað sjá fleiri koma á land því það var svo víða sem við urðum vör við fisk. En í heildina finnst mér þetta líta vel út,“ sagði Sturla í samtali við Sporðaköst.

Sigurður Sigurðsson, eða Siggi raflax með fisk sem hann veiddi …
Sigurður Sigurðsson, eða Siggi raflax með fisk sem hann veiddi í Tuma í morgun. Ljósmynd/Aðsend

98 sentímetra úr Laxapolli

Víða um vestanvert landið hafa menn verið að setja í fallega stórlaxa sem hafa verið tvö ár í sjó og eru af sömu kynslóð og smálaxinn sem kom í svo litlu magni í fyrra. Flestir bjuggust því við rólegheita veiði þar til smálaxinn fer að láta sjá sig. Þeir fiskar sem eru hins vegar mættir eru virkilega vel haldnir og svo vel að eftir því er tekið. Einn sá stærsti sem Sporðaköst hafa heyrt af í sumar veiddist í Laxapolli í Austurá í Miðfirði í morgun. Hann mældist 98 sentímetrar og tók Sunray. Veiðimaður var Ársæll Þór Bjarnason.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.
101 cm Blanda Pétur Pálsson 21. júní 21.6.
101 cm Víðidalsá James Murray 20. júní 20.6.

Skoða meira