„Ég hef aldrei séð svona lax á Íslandi“

Ingólfur Davíð með hrygnuna spengilegu sem hann náði á Fossbrotinu …
Ingólfur Davíð með hrygnuna spengilegu sem hann náði á Fossbrotinu í Sandá. Hún tók fluguna Colburn Special og allir fimmtán fiskarnir sem veiddust í opnunarhollinu koma á smáflugur og hitch. Ljósmynd/Aðsend

Ein besta opnun í manna minnum var í Sandá í Þistilfirði í  vikunni. Opnunarhollið hóf veiði þann 24. og lauk í gær. Samtals veiddust fimmtán laxar og er það án efa ein besta opnun í Sandá í háa herrans tíð. Einn af þeim sem voru í opnunarhollinu var stórlaxahvíslarinn Ingólfur Davíð Sigurðsson. Hann hefur handfjatlað marga risalaxa, bæði á Íslandi, í Noregi og Rússlandi.

„Þetta var algerlega frábær túr. Ég hef fylgst með Þistlunum í áratugi og man ekki eftir svona kröftugri opnun,“ sagði Ingólfur Davíð í samtali við Sporðaköst, nýkominn heim eftir Sandárævintýr.

„Þetta er áin. Við lönduðum fimmtán löxum og allir voru yfir áttatíu sentímetra. Sá stærsti var 98 sentímetrar og tók á Fossbrotinu. Ég fékk líka 96 sentímetra hrygnu sem ég hélt lengi vel að væri lax lífs míns. Ég sá ekki fram á að geta landað þessum svakalega fiski. Svo fór hrygnan að sýna takta og þá fljótlega áttaði ég mig á að þetta var hængurinn sem fylgdi henni. Ég hef aldrei séð svona lax á Íslandi. Hann er aldrei undir þrjátíu pundum. Aldrei,“ sagði Ingólfur Davíð.

Erna Þorsteinsdóttir, kona Ingólfs með glæsilegan fisk úr Efri þriggja …
Erna Þorsteinsdóttir, kona Ingólfs með glæsilegan fisk úr Efri þriggja laxa hyl í Sandá. Ljósmynd/Aðsend

Þótt veiðimenn tali oft um stóra fiska sem þeir sjá og telja svo og svo stóra, þá er Ingólfur með þannig reynslu þegar kemur að stórlöxum að á hann verður að hlusta. Hann hefur fengið þrjátíupundara í Vatnsdalsá svo eitthvað sé nefnt og veitt stórlaxa í bæði Noregi og Rússlandi.

„Ástandið á fiskinum er ævintýralegt. Ég hef ekki áður séð svona mikið af vel höldnum tveggja ára fiski. Þeir eru hnöttóttir.“

Nánast allir laxarnir veiddust á efsta svæðinu. Einungis einn kom af neðsta svæðinu og veiddist hann í Hornhyl, sem er klassískur vorstaður. Annars voru Steinabreiða, Efri þriggja laxa, Ólafshylur, Húshylur og Fossbrot að gefa.

Varðandi stórfiskinn segir Ingólfur að fleiri eigi eftir að sjá hann. Hængurinn liggur á Fossbroti og hefur hreinsað allt þar í burtu. Enginn fiskur á möguleika á að liggja nærri honum. „Hann verður þarna áfram nema komi til þess að hann verði leiður á athyglinni. Þá skríður hann inn í Foss.“

Þessi kraftmikla opnun hlýtur að gleðja félaga í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, sem formlega tekur ána á leigu næsta sumar, og lýkur þá áratugalöngu viðskiptasambandi Þistla og bænda í Þistilfirði.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.
101 cm Blanda Pétur Pálsson 21. júní 21.6.
101 cm Víðidalsá James Murray 20. júní 20.6.

Skoða meira