Fjögur rennsli – fjórir laxar á fluguna Daða

Sædís með fyrsta laxinn úr Sandá sumarið 2020. Tók hann …
Sædís með fyrsta laxinn úr Sandá sumarið 2020. Tók hann í Hornhyl á nýju fluguna Daða. Ljósmynd/Daði Þorsteinsson

Að reyna nýja flugu með þeim árangri að fjögur rennsli skili fjórum stórlöxum er góður vitnisburður um hönnuðinn. Sædís Eva Birgisdóttir fór í opnunarhollið í Sandá ásamt manni sínum Daða Þorsteinssyni. Þar var flugan Daði tekin til kostanna.

Þetta er flugan Daði sem gaf svo vel í Sandá. …
Þetta er flugan Daði sem gaf svo vel í Sandá. Þetta er önnur kynslóð enda var farið í að hnýta hana fyrir Svalbarðsá. Ljósmynd/Daði Þorsteinsson

Þessi fluga varð var til í hnýtingaherbergi þeirra hjóna.  Daði vildi að þau keyptu annan væs svo þau gætu hnýtt saman. Sædís var ekki spennt fyrir því og hefur ekki verið að hnýta. Daði segir svo frá: „Nei, settu bara svona gult með rauðum tips, ísbjörn í rassgatið á henni og svo vil ég svartan búk með silfurvafningum. Svo vil ég fá túrkisbláan og svo á að vera svona grænt og svartan væng. – Ég hnýtti þetta samviskusamlega á einkrækju númer tíu. En gerði bara eitt eintak,“ segir Daði í samtali við Sporðaköst.

Svona leit frum eintakið af Daða út eftir slagsmál við …
Svona leit frum eintakið af Daða út eftir slagsmál við fjóra stórlaxa. Ljósmynd/Daði Þorsteinsson

Þessi fluga gaf þeim hjónum fjóra stórlaxa í opnun Sandár. Fyrsti laxinn úr ánni kom úr Hornhyl og þar var flugan Daði að verki og Sædís var að frumreyna hana. Daði segist raunar eiga ofurlítið erfitt með nafnið en kona hans hafi ekki tekið annað í mál.

Daginn eftir fóru þau í Húsahyl og aftur setur Sædís Daða undir og fékk lax. Síðar reyndi Daði nafna sinn og fékk líka lax á fluguna, einnig í Húsahyl. Sá fjórði kom svo í Ólafshyl. „Það er búið að fara fjögur rennsli með hana og í öll skipti hefur hún gefið lax,“ hlær Daði.

Hornhylur fyrir tæpu ári. Fimm mínútum eftir þetta leit Sædís …
Hornhylur fyrir tæpu ári. Fimm mínútum eftir þetta leit Sædís á Daða og sagði að vatnið væri farið. Þau yrðu að fara heim. Ljósmynd/Daði Þorsteinsson

Sædís sjálf á ekki aukatekið orð yfir þetta og Daða finnst þetta magnað. Fjórði og síðasti laxinn sem tók þessa nýju flugu dró Daða um langan veg og flugan var kengbeygð þegar viðureigninni lauk. Nú er búið að hnýta fleiri, enda Daði að fara í Svalbarðsá í dag og þar verður nafni hans án efa notaður.

Hættið þessu túpuskaki!

Daði segir að allir fimmtán fiskarnir sem veiddust hafi komið á smáar flugur og hitch. „Það bjargaði okkur í þessu mikla vatni að vera með smátt. „Ég segi það oft að menn eigi að hætta þessu túpurugli og hafa flugurnar smáar. Þá bera menn bæði virðingu fyrir þeim sem á eftir koma og þá helst lengur líf í þessu. Það er bara ekkert vit í því að vera slá þessa fiska utan undir með stórum túpum. Þeir leggjast bara með trýnið í botninn og tekur alveg einn tvo daga fyrir þá að jafna sig.“

Daði með fallegan Sandárlax.
Daði með fallegan Sandárlax. Ljósmynd/Aðsend

Skírð úr vatni úr Sandá

Flugan sem hinir þrír laxarnir sem þau hjón veiddu veiddust á er nefnd í höfuðið á dóttur þeirra sem er að verða eins árs. Sú fluga heitir Erna Björk. „Hún fæddist nánast í Sandá. Við vorum að veiða Hornhyl 11. júlí í fyrra. Þá segir Sædís allt í einu við mig: „Úbbs. Ég var að missa vatnið. Við þurfum að drífa okkur heim.“ Við drifum okkur af stað og rétt náðum á spítalann í Neskaupstað.“ Dóttir þeirra var svo skírð upp úr vatni úr Sandá. Daði sótti vatn í Kofahyl í næstu ferð og það fór í skírnarfontinn. „Þetta er svolítið manían á heimilinu. Við hnýtum á veturna og veiðum á sumrin,“ brosti Daði.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.
100 cm Blanda Neil Boyd 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jörgensen 4. júlí 4.7.

Skoða meira