Fyrsti hundraðkallinn af NA-horninu

Viggó Júlíusson með hrygnuna sem hann veiddi í Svalbarðsá í …
Viggó Júlíusson með hrygnuna sem hann veiddi í Svalbarðsá í dag. Mældist 104 sentímetrar. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsti hundraðkallinn á NA-horninu sem Sporðaköst hafa frétt af, veiddist í Svalbarðsá í dag. Það var Viggó Júlíusson sem setti í þessa miklu hrygnu og landaði. Hún mældist 104 sentímetrar og er þar með stærsta hrygna veidd í sumar. Áður hafði veiðst 101 sentímetra hrygna í Blöndu. Laxinn veiddist í  Laxahyl.

Hollið í Svalbarðsá var með fína veiði og landaði 22 löxum og þar af var þessi risavaxna hrygna, sem leigutaki árinnar, Hreggnasi ehf, segir á facebook síðu sinni að sé að öllum líkindum að koma í annað sinn til hrygna í ánni. Athygli vekur að aðeins þrír af þessu löxum flokkast sem smálaxar.

Viggó heldur úti vefnum veidi.net þar sem allar veiðifréttir birtast. Sporðaköst náðu sambandi við hann þegar hann kom í veiðihúsið í Svalbarðsá.

Þetta er alvöru styrtla. Viggó segir baráttuna hafa verið magnaða …
Þetta er alvöru styrtla. Viggó segir baráttuna hafa verið magnaða og hann hefur ekki áður veitt svo stóran lax í Svalbarðsá. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var bara svakalegt. Ég var einn og þetta var mikill bardagi. Ég set í hana í Laxahyl og hún var þar í tæpan hálftíma og svo rauk hún niður og ég landaði henni í gilinu. Ég hef fengið marga fiska hér yfir 90 sentímetra en ég hélt að maður þyrfti að fara til Rússlands til að fá svona fisk. Svo var mér sagt að það hefði veiðst hrygna eins og þessi fyrir tveimur árum. Þannig að þessir fiskar eru hér. Þessi hrygna var sko alls ekki ný sennilega búinn að vera í mánuð í ánni. Hún er eins og ágúst fiskur sem kom frekar snemma, miðað við hversu leginn hún er,“ sagði alsæll Viggó í samtali við Sporðaköst.

Aðspurður um fluguna segist hann hafa keypt hana af Dodda í Veiðifélaginu. „Þetta er afbrigði af Þýskri Snældu en ekki með gula litnum. Var hálf tomma.“

Þetta var alvöru slagur hjá Viggó sem var með tíu feta stöng fyrir línu sjö. Þegar hann er spurður um mögulegan endurkomu fisk segir hann að sér fróðari menn horfi á doppurnar á höfðinu á henni og telji þær til marks um að þessi hrygna sé að koma aftur til að hrygna.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira