Auknar laxagöngur - sullast inn í Kjósina

Álabakkar veiddir í blankalogni í morgun. Veiðistaðurinn er rétt fyrir …
Álabakkar veiddir í blankalogni í morgun. Veiðistaðurinn er rétt fyrir neðan Káranesfljót og á öllu þessu svæði er mikið af fiski. Ljósmynd/ES

Það er víða að fréttast af góðum laxagöngum á vestanverðu landinu. Ein af þeim ám er Laxá í Kjós. Við tókum hús á Haraldi Eiríkssyni Kjósarbónda við Laxá. Hann segist ekki hafa séð jafn mikið af fiski í Kjósinni í þrettán ár, og ef einhver þekkir Laxá í Kjós þá er það Halli, eins og hann er kallaður.

Hann var með írska veiðimenn sem voru mjög ánægðir með dvölina og hafa landað töluverðu magni af fiski. Þeir voru með fjóra á land í morgun og misstu aðra fjóra uppi á efsta svæði árinnar.

Er mikið af fiski að ganga?

„Komdu bara með okkur og leggðu mat á það sjálfur,“ svarar Halli að bragði og brosir. Við byrjum í Káranesfljóti og þar eru teknir á stuttum tíma þrír sjóbirtingar og einn lax. Smálax og birtingar á bilinu fimm til ellefu pund. „Sjáðu þarna,“ kallar Halli. „Ganga að koma inn.“ Og það er rétt hjá honum. Annars kyrrt yfirborðið neðst í Káranesinu er skyndilega fullt af öldum sem strika inn í hylinn og fiskur stekkur, og svo annar og sá þriðji.

Haraldur Eiríksson með fallegan smálax úr Golfstraumi í Bugðu. Írarnir …
Haraldur Eiríksson með fallegan smálax úr Golfstraumi í Bugðu. Írarnir voru heillaðir af svæðinu og ekki síst Bugðu þar sem þeir gerðu góða veiði. Ljósmynd/ES

„Mín tilfinning er að það séu um þúsund fiskar frá Laxfossi og upp úr. Sjóbirtingurinn er vænn og í töluverðu magni en við höfum verið að sjá mikið af laxi að ganga síðustu daga enda styttist í stærsta strauminn, þann tuttugasta,“ segir Halli, en hann er hóflega bjartsýnn. Auðvitað er maður brenndur af árinu í fyrra. Þá kom mjög lítið af fiski og þurrkurinn hafði gríðarleg áhrif. En nú lítur þetta bara vel út.“

Þeir veiða Kríueyri sem er upp á Frísvæði. Þar sjáum við bunka af birtingi og slangur af laxi. Næst liggur leiðin í Bugðu og fyrstu köstin eru tekin á hylinn Golfstraum. Í fyrstu þremur köstunum kemur lax á eftir hitchaðri einkrækju en tekur ekki. Nokkru neðar gerist það sama og smálax tekur hitchið og er landað. 67 sentímetrar mælist hann og fær frelsi. Við sjáum laxa neðar og nokkrir elta í Einbúa.

Lækjarbreiðan, neðan Kvíslafoss veidd. Það er mikið vatn í Laxá …
Lækjarbreiðan, neðan Kvíslafoss veidd. Það er mikið vatn í Laxá og fiskur gengur hratt. Ljósmynd/ES

Þá er haldið aftur í Laxá og það á breiðuna fyrir neðan Laxfoss. Mikið vatn er í Kjósinni og lax getur legið víða fyrir neðan foss. Skyndilega sjáum við smálax stökkva og svo færist líf í tuskurnar. Fullt af fiski er á lofti eða rétt setur bakið upp úr. Það er reynt að hitcha en hann skoðar bara. Smáfluga. Ekkert gerist. Lítil Collie Dog túpa og einn skoðar hana. Grænn Bismó, örsmár fer undir. Hestahnútur er settur á hausinn svo að hann hitchi. Það virkar. Sterkur brúnbakur tekur Bismóinn og er landað eftir fjöruga baráttu. Hann mælist 68 sentímetrar. Lúsugur og gullfallegt eintak. 

„Næst er það Kvíslafoss. Það er reyndar svolítið strítt á honum en við prófum hann,“ Halli er í stuði með sína menn og hann veit að flóðið er afstaðið og fiskar gætu verið á uppleið. 

Það er stirtla við stirtlu í Kvíslafossi en hann gerir ekkert. Þá er komið að Lækjarbreiðu, skammt neðan fossins. Þar tillum við í lax en bara örstutt. Nokkru síðar er grimmileg taka, sennilega sjóbirtingur en hann lekur af. Það er töluvert magn af fiski í Lækjarbreiðu en erfitt að eiga við hann í þessu vatni. Við kveðjum Halla og Írana hafandi upplifað með eigin augum að fiskur er að sullast inn í Kjósina. Þegar þessi umfjöllun birtist er búið að landa 29 fiskum í Kjósinni í dag. Það er góður dagur.

Á heimleið er hringt í nokkrar ár á Vesturlandi. Víðidalur er að sjá mikið líf á neðsta svæðinu og ljóst að fiskur er ganga í nokkru magni. Sömu sögu er að segja úr Miðfirði og í Vatnsdal er fiskur að ganga, en eins og Björn K. Rúnarsson bendir á þá er Vatnsdalur oft tveimur dögum á eftir Víðidal.

Við höfum fjallað um góðar göngur í Sogið og Eystri Rangá er sér kapítuli út af fyrir sig.

Það er of snemmt að fara að færa þetta laxveiðisumar til bókar. Það eru skemmtilegir hlutir að gerast víða.

Uppfært

Þegar dagur var að kveldi kominn hafði þrjátíu lösum verið landað og þremur sjóbirtingum. Það sem er sérstaklega áhugavert er að á svæði fjögur komu samtals þrettán laxar. Þetta er stærsti veiðidagurinn í Kjósinni það sem af er sumri.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert