Risi úr Kristnapolli í Laxá í Dölum

Arnór var einn á stöng og gat því tekið takmarkað …
Arnór var einn á stöng og gat því tekið takmarkað af myndum, en styrtlan og blaðkan leyna sér ekki. Hann mældist 102 sentímetrar. Ljósmynd/Arnór Ísfjörð

Fyrsti hundraðkallinn veiddist í Laxá í Dölum seinnipartinn í dag. Þar var að verki Arnór Ísfjörð Guðmundsson. Hann hafði sett í hrygnu í Kristnapolli í morgun og var hún 89 sentímetrar. Eftir hádegi átti hann aftur kost á Kristnapolli og varð hugsað til sögu sem hann hafði heyrt um að hægurinn tæki gjarnan eftir að hrygnan hefði veiðst.

Með þetta í huga fór hann með Collie Dog kón og kastaði yfir Kristnapoll. fljótlega fékk hann töku og eins og hann segir sjálfur frá; „Eftir svona fimm sekúndur hreinsaði hann sig alveg og ég áttaði mig á að þetta væri metrinn. Ég varð pínu stressaður þar sem ég var með ellefu punda taum. Vanalega tek ég fast á fiskum en var með þennan í fjörutíu mínútur. Hann var reyndar alveg þægilegur. Tók nokkrar ferðir upp og niður pollinn en svo náði ég að stranda honum og það var æðisleg tilfinning. Grýtti frá mér stönginni og stökk á hann. hann mældist 102 sentímetrar og ég tvímældi hann,“ sagði kátur veiðimaður í veiðihúsinu Þrándargili í Laxá í Dölum í samtali við Sporðaköst.

Vígalegur hængur, sem hafði misst hrygnuna sína fyrr um morguninn.
Vígalegur hængur, sem hafði misst hrygnuna sína fyrr um morguninn. Ljósmynd/Arnór Ísfjörð

Arnór er svo sem enginn byrjandi þegar kemur að hundraðköllum. Þetta var hans áttundi. Hann fékk slíka fiska í Blöndu, Svartá, Hraunsfirði, Kjarrá, tvo í Langadalsá og einn í Eystri Rangá.

Ágætis veiði er í Laxá í Dölum að sögn Arnórs. Hollið sem klárar á hádegi á morgun er komið með 35 laxa og okkar maður er með átján af þeim.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira