„Langstærsta bleikja sem ég hef veitt“

Guðjón Þór með bleikjuna stóru úr Úlfljótsvatni. Hún tók Krókinn …
Guðjón Þór með bleikjuna stóru úr Úlfljótsvatni. Hún tók Krókinn númer sextán. Ljósmynd/Aðsend

Hreint út sagt mögnuð bleikja veiddist í Úlfljótsvatni á fimmtudaginn. Þar var að verki Guðjón Þór Þórarinsson. „Við hjónin vorum með yfirlýsingar kvöldið áður um að vakna eldsnemma og taka þetta með trompi. Það tókst nú ekki betur til en svo að við sváfum yfir okkur og vorum ekki komin í vatnið fyrr en klukkan ellefu,“ hlær Guðjón í samtali við Sporðaköst.

Það var skömmu eftir hádegi að bleikjan tók hjá honum í víkinni fyrir neðan kirkjuna. „Hún var ekkert mjög langt úti. Ég var að fara að rífa upp og kasta aftur þegar hún tók fluguna.

Ég var með fimmu Sage X og með sex punda taum. Hún tók fjórar rokur og alltaf langt niður á undirlínu. Þetta er svo stór sporður á þessari skepnu. Ég var á taugum allan tímann að hún myndi slíta. Þetta er langstærsta bleikja sem ég hef nokkurn tíma veitt.“

Nánast hnöttótt og stærðin á sporðinum er líka athyglisverð.
Nánast hnöttótt og stærðin á sporðinum er líka athyglisverð. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Gaui, eins og hann er kallaður, er spurður um hvernig hún hafi smakkast segist hann hafa farið með hana í reyk. „Það sagði einu sinni við mig maður þegar ég var með stóra bleikju úr Úlfljótsvatni: Ekki grilla bleikjuna, þú kveikir í grillinu, hún er svo feit.“

Bleikjan, sem var sex pund en ekki nema sextíu sentímetrar, tók Krókinn númer sextán.

„Ég var skotheldur á að ég myndi missa hana. Hélt fyrst að þetta væri urriði. En svo náði ég henni betur að mér og sá þá hvers kyns var.“

Hann var ásamt eiginkonunni á Þingvöllum í morgun en lítið var að gerast nema mikið af murtu. Hann ætlar svo aftur í Úlfinn í fyrramálið.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira