Haffjarðará „er í toppformi“

Breskur veiðimaður þreytir sprækan lax efst í Sauðhyl Haffjarðarár. Bretinn …
Breskur veiðimaður þreytir sprækan lax efst í Sauðhyl Haffjarðarár. Bretinn landaði átta þar á níutíu mínútum, og missti fleiri. Morgunblaðið/Einar Falur

Þegar klukkan sló níu kvöld eitt í liðinni viku, og veiði dagsins í Haffjarðará var þar með lokið, stóð breskur veiðimaður orðlaus en skælbrosandi efst við Sauðhyl. Hann hristi höfuðið, eins og hann tryði ekki því sem hann hafði lent í, fékk svo málið og fullyrti að hann hefði í níutíu mínútur á undan lent í veiðiævintýri lífs síns. Á þessum níutíu mínútum glímdi hann við og landaði átta löxum, og setti í þrjá til sem hann missti. Og allan tímann veiddi hann bara efst í strengnum og veiddi sig ekkert niður eftir löngum hylnum sem vægast sagt kraumaði af laxi – oft voru nokkrir á lofti samtímis. Blaðamaður, sem var svo lánsamur að verða vitni að þessari góðu veiði kunningja síns, háfaði laxana og mældi áður en þeim var sleppt aftur, flestir nýgengnir og allir vel haldnir. Tveir fallegir tveggja ára fiskar þar á meðal. Morgunvaktin við sama hyl gaf tveimur veiðimönnum 13 laxa; 21 kom því úr honum þennan dag. Sem er lýsandi fyrir gæðin sem felast í veiðinni í þeirri perlu sem Haffjarðará á Snæfellsnesi er. Þar er veitt á sex stangir og meðalveiði á stöng síðustu vikur hefur verið þrír til þrír og hálfur lax á stöng á dag, sem er vitaskuld afar gott.


Fjöldi að sýna sig


„Áin er í toppformi,“ segir Óttar Yngvason, eigandi Haffjarðarár, þegar rætt er um veiðina í sumar. „Ég er búinn að vera viðloðandi þarna í meira en fjörutíu ár og held ég hafi aldrei séð jafn mikið af fiski sýna sig í henni, nema mögulega metárið okkar 2013.“ Hann bætir við að veiðitölurnar séu ekki þær sömu nú og þá en veiðin samt mjög góð. „Mér sýnist að við náum um meðalfjölda fiska, svona þúsund til ellefu hundruð löxum, ef ekkert kemur upp á.
Auðvitað sveiflast veiðin eftir náttúrunni,“ bætir Óttar við. Hann segir að að minnsta kosti síðustu hálfu öldina, og í raun síðan Thor Jensen keypti jarðirnar við ána og friðaði hana fyrir veiði í tíu ár, milli 1910 og '20, hafi verið passað afar vel upp á það að veiða hana alltaf hóflega. Hins vegar hafi allir veiddir fiskar verið drepnir fram yfir 1990 en eftir 1996 hafi verið farið að sleppa veiddum laxi í stórum stíl og það hafi haft mikil og góð áhrif.
„Það er ljóst að veiðin tók eftir það alltaf sveiflu upp á við á fimm ára fresti  en það er einmitt ein kynslóð laxins. Gegnum áratugina fram að því var meðalveiði í ánni ekki nema 5-600 fiskar, þótt hún hafi verið hóflega veidd,“ segir Óttar, en frá 2003 hefur veiðin í Haffjarðará aðeins einu sinni farið undir 1.000 laxa.


Þorra laxa sleppt


Óttar segir 75 til 80 prósentum laxa sem veiðast vera sleppt. Í mörg ár var hluti veiddra laxa, sem var sleppt, merktur og veiddust um 20 prósent þeirra aftur.
„Þetta góða ástand í ánni er ekki vegna neirra nýrra ráðstafana, heldur byggist á margra áratuga náttúruvernd, miklum sleppingum og hóflegri veiðisókn – og enn þá óspilltum náttúrulegum laxastofni af völdum hins framandi norska eldislax, sem stjórnmálamenn dagsins í dag telja að geti bjargað atvinnu – og kannski atkvæðum – í strjálum byggðum landsins eins og minkurinn átti að gera forðum. Þar gleymast hagsmunir þeirra þúsunda sem vinna við veiðar náttúrulegra laxastofna,“ segir Óttar.

Graf/mbl.is


Hörkugangur í Hofsá


Þegar rýnt er í veiðitölurnar í aflahæstu ám landsins teiknast upp sú mynd að vel veiðist í hafbeitaránum á Suður- og Austurlandi, sérstaklega þó Eystri-Rangá og Affallinu. Þær öflugu smálaxagöngur sem fiskifræðingar höfðu spáð að myndu mæta í ár á Vesturlandi hafa ekki reynst svo liðmargar, en eftir hörmungarveiðina í fyrrasumar virðast þær þó vera með ágæta meðalveiði. Það er rólegt yfir húnvetnsku ánum; Blanda og Laxá á Ásum skríða inn á listann yfir 15 gjöfulustu. Aðstæður eru vissulega breyttar í Blöndu, þar sem í fyrsta sinn er aðeins veitt á flugu, en á Ásunum er meðalveiði á stöng í síðustu viku um 1,7 laxar á dag, sem telst ekkert sérstakt þar. Víðidalsá er síðan í 18. sæti listans, með 292 laxa veidda og 0,75 laxa á stöng á dag. Vatnsdalsá er enn neðar á listanum, númer 26, með 200 laxa í bók og sömu meðalveiði á stöng í síðustu viku. Fínasta veiði er í Vopnafjarðaránum og vekur sérstaka athygli að Hofsá virðist búin að jafna sig eftir lægð síðustu ára; þar er meðalveiði á stöng síðustu tvær vikur yfir þrír laxar á dag, sem er afar gott.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Miðfjarðará Erik Koberling 18. september 18.9.
104 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 18. september 18.9.
100 cm Miðfjarðará Páll Guðmundsson 15. september 15.9.
101 cm Víðidalsá Hörður Sigmarsson 15. september 15.9.
108 cm Vatnsdalsá Ingólfur Davíð Sigurðsson 10. september 10.9.
103 cm Vatnsdalsá Nils Folmer Jörgensen 9. september 9.9.
100 cm Hrútafjarðará Gísli Vilhjálmsson 9. september 9.9.

Skoða meira