„Segið svo að flugan skipti ekki máli“

Rögnvaldur til vinstri og Egill til hægri. Þeir upplifðu skemmtilegt …
Rögnvaldur til vinstri og Egill til hægri. Þeir upplifðu skemmtilegt atvik í Neðri Valhyl í Viðidalsá í gær. Ljósmynd/ES

Veiðimenn í Víðidalsá urðu vitni að skemmtilegu atviki í gær. Þeir félagar Rögnvaldur Guðmundsson og Egill Guðjohnsen voru að veiða Neðri-Valhyl. Rögnvaldur sat uppi í brekkunni hátt fyrir ofan hylinn og hafði góða yfirsýn yfir allt sem gerðist.

Egill kastaði grænni metallicu númer fjórtán og gerðarlegur hængur óð í áttina að flugunni og skoðaði hana. Veiðimaðurinn varð ekki var við þetta því hængurinn rauf ekki vatnsyfirborðið. Aftur kastaði Egill á sama stað og leikurinn endurtók sig.

Nú var farið í að skipta um flugur. Einar fimm flugur voru teknar yfir hænginn en án nokkurra viðbragða. Meðal annars var ein þeirra græn metallica á svörtum krók.

Nú ákvað Egill að fara aftur í upprunalegu fluguna. Fyrsta kastið var of langt og lenti flugan töluvert fyrir neðan hænginn. Það skipti engum togum að laxinn rauk af stað niður breiðuna og tók fluguna með offorsi á niðurleiðinni.

Eftir um fimm mínútna viðureign lak þessi fiskur af enda ekki óskastaða að fiskur taki niður undan sér. En eins og Rögnvaldur Guðmundsson sagði í samtali við Sporðaköst eftir þetta ævintýri: „Veiðimaðurinn sá aldrei hvað var að gerast og ef ég hefði ekki verið í brekkunni hefðum við ekki getað unnið á þessum fiski. Segið svo að flugan skipti ekki máli,“ sagði Rögnvaldur.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira