Palli í Veiðihúsinu hefur umpólast

Einar Páll Garðarsson, eða Palli í Veiðihúsinu með tvo fallega …
Einar Páll Garðarsson, eða Palli í Veiðihúsinu með tvo fallega laxa af Gíslastöðum í Hvítá. Hann er í dag orðinn afhuga veiða og sleppa. Ljósmynd/Aðsend

Einar Páll Garðarsson, eða Palli í Veiðihúsinu eins og hann er alltaf kallaður, segist orðinn afhuga veiða og sleppa fyrirkomulaginu. „Ég hef umpólast í þessu,“ segir hann í samtali við Sporðaköst. „Meira er af fiski í ánum þegar líður á haustið og nú er verið að selja útlendingum laxveiði á Íslandi langt fram í september. Þegar ég var að byrja sem leiðsögumaður 1989 var besti tíminn seldur til útlendinga. Þetta var frá byrjun júlí fram í miðjan ágúst. Með veiða og sleppa færðist þetta fram og er nú verið að selja dýra laxveiði fram á haust. Þetta er frábært tekjumódel fyrir landeigendur og leigutaka,“ segir Palli.

Hins vegar horfir hann til ástandsins og hnignandi laxveiði á Íslandi. Hann hefur orðið miklar efasemdir um að veiða og sleppa hjálpi þessum ám með að efla stofna.

Með fallegan lax af Gíslastöðum í Hvítá. Hann vill fá …
Með fallegan lax af Gíslastöðum í Hvítá. Hann vill fá að taka með sér fisk og efast orðið um að veiða og sleppa sé að skila árangri. Ljósmynd/Aðsend

Palli minnir á að Tumi Tómasson fiskifræðingur sagði að það þyrfti aðeins eitt par í hverjum hyl til að viðhalda góðum stofni í á. Hann segist telja af hinu góða að opna ný búsvæði fyrir laxa því þar sé fæða og pláss fyrir seiði, en hann hefur miklar efasemdir um mikinn þéttleika þeirra.

„Nú er fiskimagnið sem hrygnir í mörgum af þessum ám margfalt á við það sem það var. Það merkir að fleiri seiði slást um ætið og plássið. Því hefur alltaf verið svarað að þau sterkustu komist af. Ég spyr á móti hversu sterk eru þau eftir að hafa barist um fæðu þar sem mögulega er ekki nóg fyrir allan þennan fjölda? Ég er ekki viss um að þetta gefi okkur sterkari og öflugri seiði þegar upp er staðið.“

Palli segist ekki hafa borið þetta undir fiskifræðinga en hugsar til baka. Síðasti áratugur hefur verið erfiður. „Fjögur hörmungarár, eitt mjög gott og annað gott en hin hafa bara verið í meðallagi. Nú eru þetta tvö slæm ár í röð. Það sem kemur kannski á óvart er að síðasta sumar var lítil laxgengd í nánast allar ár og allir töluðu um hvað væri að gerast í sjónum sem væri algjör óvissuþáttur.

Okkar maður. Búinn að setja í flottan fisk á Gíslastöðum. …
Okkar maður. Búinn að setja í flottan fisk á Gíslastöðum. Hann kaupir sín leyfi í ám þar sem má taka fisk með sér heim. Ljósmynd/Aðsend

Núna eru sumar árnar að koma vel út en aðrar ekki og þá spyr maður sig, það er kannski ekki sjórinn sem er sökudólgurinn í þessu heldur hvað er að gerast í þessum ám sem hafa svona litlar heimtur! Þetta er allavega orðið þannig hjá mér að kaupa bara leyfi þar sem ég má taka með mér það sem ég vil. Málið snýst ekki um að drepa allt en ég vil fá að taka fisk.

Auðvitað á að vera kvóti Ég er búinn að fara allan hringinn í þessu. Þegar ég byrjaði var allur lax drepinn alls staðar. Svo fór þetta út í að sleppa stærri fiski sem er bara mjög gott, en nú er víða öllu sleppt. Ég held að þetta sé ekki að skila því sem menn vonast eftir og eitt besta dæmið er Vatnsdalsá þar sem búið er að veiða og sleppa öllum laxi í rúm tuttugu ár. Hvað var svona slæmt við gamla háttinn þegar veiðimenn hirtu það sem þeir veiddu? Ég veit að ég á eftir að fá bágt fyrir þessa skoðun mína og kæmi mér ekki á óvart að þeir sem munu blása séu þeir sem eiga hagsmuna að gæta og er það skiljanlegt. En eitt er víst, við megum öll hafa skoðanir hvort sem þær eru réttar eða rangar,“ sagði Palli.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira