Stærsti sjóbirtingur í áratugi

Hér er Karl Brynjar með hænginn tröllvaxna. Hann er töluvert …
Hér er Karl Brynjar með hænginn tröllvaxna. Hann er töluvert leginn og aðeins fallinn. Karl heldur frekar framarlega um stirtluna og segir að hann hafi verið svo langur að erfitt hafi verið að halda honum til myndatöku. Ljósmynd/Ómar Sigurjónsson

Einn stærsti sjóbirtingur sem veiðst hefur á stöng á Íslandi svo vitað sé veiddist í Tungulæk snemma í morgun. Þeir félagar Karl Brynjar Björnsson og Ómar Sigurjónsson hófu veiðar á Breiðunni sem er efsti veiðistaður í læknum.

Fljótlega settu þeir í stórfisk en misstu. Sá leikur endurtók sig trekk í trekk.

„Ég ákvað að setja undir laxaflugu og fyrir valinu varð Green But númer fjórtán. Mjög fljótlega setti ég í fisk og vissi strax að þetta var dreki. Hann rauk fram og aftur um hylinn og þetta var bara algerlega ruglað. Við sáum hann ekki almennilega fyrr en eftir tæpan hálftíma. Þá bara trúðum við ekki okkar eigin augum hversu stórt dýr þetta var,“ sagði Karl Brynjar Björnsson sem landaði sjóbirtingi sem mældist 107 sentímetrar. Sporðaköstum er ekki kunnugt um svo stóran sjóbirting sem veiðst hefur á stöng. Gaman væri ef einhver vissi um stærri fisk.

Hvernig mælduð þið fiskinn?

„Heyrðu það var smá vesen. Við vorum ekki með málband en af því að það leyndi sér ekki hversu stór þessi skepna var þá lögðum við tauminn á hann og klipptum nákvæmlega lengdina. Við vönduðum okkur við þetta og mældum svo tauminn. Hann var 107,“ sagði Karl Brynjar í samtali við Sporðaköst.

Hér er svo 94 sentímetra birtingur sem líka var veiddur …
Hér er svo 94 sentímetra birtingur sem líka var veiddur í Tungulæk í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Fiskurinn var nokkuð fallinn og ljóst að hann hefur gengið fyrir töluverðum tíma. Fiskur af þessari stærð er ekki undir 26 pundum nýgenginn.

Þeir félagar voru í sannkallaðri veislu. „Ég hugsa að við höfum misst ábyggilega tuttugu stórfiska en lönduðum 96, 94, 85, 80 og serían var alveg ótrúleg. Auðvitað er svona fiskur upp á þessa stærð fiskur lífsins. Ég hefði aldrei reiknað með að veiða sjóbirting sem mældist yfir hundrað sentímetrar,“ sagði Karl Brynjar á heimleið úr Tungulæk.

Árið 2002 var sagt frá í Morgunblaðinu að Haraldur Eiríksson hefði veitt hundrað sentímetra langan sjóbirting á sama stað. Sá fiskur var drepinn þar sem honum blæddi út. Hann var vigtaður á löggiltri vigt á Klaustri og stóð 23 pund. Sá fiskur var sagður sá allra stærsti af sjóbirtingum sem vitað var að hefði veiðst á stöng hérlendis.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Miðfjarðará Páll Guðmundsson 15. september 15.9.
101 cm Víðidalsá Hörður Sigmarsson 15. september 15.9.
108 cm Vatnsdalsá Ingólfur Davíð Sigurðsson 10. september 10.9.
103 cm Vatnsdalsá Nils Folmer Jörgensen 9. september 9.9.
100 cm Hrútafjarðará Gísli Vilhjálmsson 9. september 9.9.
100 cm Jökla Jón Már Jónsson 23. ágúst 23.8.
100 cm Stóra Laxá 4 Esther Vogel 22. ágúst 22.8.

Skoða meira