Stærsti laxinn til þessa í Hrútafjarðará

Hundrað sentímetrar. Gísli var einn við löndun á stórlaxinum og …
Hundrað sentímetrar. Gísli var einn við löndun á stórlaxinum og því er þetta eina myndin sem til er. En það leynir sér ekki að þetta er hundraðkall. Ljósmynd/Gísli Vilhjálmsson

Glæsilegur hundrað sentímetra hængur veiddist í Hrútafjarðará síðastliðinn miðvikudag. Veiðimaður var Gísli Vilhjálmsson tannlæknir og setti hann í og landaði fiskinum í Hamarshyl. Stórlaxinn tók Sunray Shadow, litla.

Veiðin í Hrútafjarðará hefur verið ágæt í sumar og er hún að nálgast þrjú hundruð laxa. Aðeins er veitt á þrjár stangir í ánni. Veitt er út september í Hrútu og ljóst að hún á eftir að bæta nokkuð við sig. Síðasta vika gaf sautján laxa í Hrútafjarðará eða frá 2. til 9. september.

Þröstur Elliðason leigutaki Hrútafjarðarár var ánægður með veiðina og sagði töluvert af fiski í Hrútu. Það myndi svo mikið ráðast af veðri og skilyrðum hverju síðari hluti september myndi skila í veiðitölum.

Lokatölur í fyrra voru 401 lax og var það mjög gott ár miðað við margar ár. Ólíklegt er að Hrútan nái þeirri tölu aftur.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira