Það var sannkallað stórlaxakvöld í Miðfjarðará í gærkvöldi. Með stuttu millibili lönduðu veiðimenn í Austurá 96 sentímetra hæng sem var svo toppaður með 100,5 sentímetra hæng stuttu síðar.
Hundraðkallinn veiddi Erik Koberling, sem veiðimenn þekkja sem staðarhaldara í Blöndu í sumar.
Erik setti í laxinn í Grjótárstreng og tók hann rauðan Frances-míkrókón. Úr varð hörkuviðureign og þurfti Erik að hlaupa á eftir stórlaxinum einhver hundruð metra. Erik greindi frá þessari veiði á facebooksíðu sinni og segist ekki hafa orðið eins móður í langan tíma og eftir að elta þennan stórlax. „Um leið og hann tók sneri hann og eins og byssukúla rauk hann niður ána,“ sagði Erik í samtali við Sporðaköst. Viðureignin tók ríflega hálftíma.
Sama kvöld landaði Helgi Guðbrandsson 96 sentímetra hæng í Tangastreng nýja. Var það einnig glæsilegur fiskur með alla þá haustliti sem hægt er að ímynda sér. Það voru sáttir veiðimenn sem kvöddu Austurá undir myrkur í gærkvöldi.