Hofsá bannar túpur og sökkenda

Hann er á í Hofsá. Hér er slegist við fallega …
Hann er á í Hofsá. Hér er slegist við fallega tveggja ára hrygnu í veiðistaðnum Fence í sumar. Ljósmynd/ES

Veiðifélag Hofsár beindi því til leigutaka árinnar að frá og með næsta veiðitímabili verði sökkendar og stórar þyngdar túpur bannaðar við veiðar í Hofsá. Þessi beiðni kemur til eftir að Hofsárbændur hafa fylgst með framkvæmd nýrra veiðireglna sem tóku gildi í Selá í sumar. Þá var bannað að nota sökkenda, þungar túpur og settur á löndunarkvóti. Aðeins má landa fjórum löxum á vakt. Þá var einnig gripið til þess að leyfa einungis veiði á tveimur löxum úr hyl á veiðivakt. Sú regla verður ekki tekin upp í Hofsá.

Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs sem rekur báðar árnar segir að þessi tilraun með breyttar veiðireglur hafi gefið góða raun í Selá í sumar. „Við fengum lægri topp í veiðina á besta tímanum, en veiðin hélst jafnari út veiðitímann,“ sagði Gísli í samtali við Sporðaköst. 

Veiðitímanum í báðum Vopnafjarðaránum er lokið. Hofsá fór yfir þúsund laxa í fyrsta skipti frá árinu 2013. Selá var á ágætisróli og skilaði 1259 löxum.

Aðspurður hvernig veiðimenn hefðu tekið þessum breytingum í Selá sagði Gísli að mikil umræða hefði spunnist um þetta breytta fyrirkomulag í veiðihúsinu í sumar. „Það er nú bara þannig með allar breytingar að fólk tekur þeim misjafnlega, en eins og ég segi, heilt yfir voru menn jákvæðir og sáttir við þessa breytingu í Selá. Ég á ekki von á öðru en að það sama verði uppi á teningnum í Hofsá.“

Ágústveiði í Hofsá. Þar verður nú bannað að nota sökklínur …
Ágústveiði í Hofsá. Þar verður nú bannað að nota sökklínur og tauma og einnig stórar túpur. Ljósmynd/ES

Veiðimönnum í Selá er skylt að hafa leiðsögumann með sér og hefur veiðitíminn verið styttur í báða enda. þannig að veitt er í tíu klukkutíma á dag í stað tólf sem er hámarks tími samkvæmt lögum.

Nýju reglurnar í Hofsá verða vægari útfærsla af nýju reglunum í Selá. Sökktaumar og túpur verða ekki leyfðir og kvóti á stöng verður áfram fimm laxar í Hofsá. Rétt er að taka fram að bannið tekur einungis til stórra og þyngdra túpa. Áfram verður heimilt að veiða á kóna og litlar túpur, kvarttommur og slíkt.

Efri Foss í Selá. Breytt veiðifyrirkomulag þótti gefa góð svo …
Efri Foss í Selá. Breytt veiðifyrirkomulag þótti gefa góð svo góða raun að Hofsárbaændur vilja fara í svipað fyrirkomulag. Ljósmynd/ES

Segja má að grunnhugmyndin að því að leyfa aðeins veiði á tveimur löxum úr sama hyl sé tvíþætt. „Við sjáum það í Selá við Fossinn og sundlaugarhyljina að þar geta menn staðið heila vakt og kastað á sömu fiskana. Okkar reynsla er að þegar búið að er að setja í og spila tvo fiska þá eru hinir ekki að fara að taka. Svo hafa komið fram vangaveltur um þá fiska sem eru í gjöfulustu hyljunum, að áreitið sé svo mikið að það þurfi hreinlega að draga úr því og þetta er leið til að koma í veg fyrir að kastað sé á sömu fiskana allan daginn, allan veiðitímann,“ sagði Gísli.

Fréttin hefur verið uppfærð
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira