Í skítakulda og hávaðaroki veiddist stærsti lax sumarsins í Víðidalsá í morgun. Fiskurinn tók Ofsaboom túpu. Þetta gerðist í hinum fornfræga veiðistað Efri Kælir. Viðureignin var ævintýraleg og Kristján Jónsson frá Blönduósi setti í og landaði þessari stórvöxnu hrygnu sem mældist 107 sentímetrar.
Fljótlega eftir að fiskurinn tók ætlaði Kristján að spóla inn slakan og þá án nokkurs átaks var sveifin laus af hjólinu. Nú voru góð ráð dýr og Kristján þurfti að beita þeim ráðum að bakka upp á tún og koma svo nær ánni þegar fiskurinn strikaði út. Svona gekk þetta dágóða stund og í fjórgang var nærri búið að stranda fiskinum en alltaf paufaðist hún út aftur.
„Það vildi mér til láns að hún var ekki að taka miklar rokur og var mest að þumbast. Guðbjörg kona mín og félagi á svæðinu aðstoðuðu mig svo við að landa henni. Við mældum hana og komum henni svo beint í klakkistu,“ sagði Kristján í samtali við Sporðaköst.
Það vakti athygli þegar þríkrókurinn var losaður úr hrygnunni að krókurinn var samanklemmdur. Hann verður ekki notaður aftur.
Kristján hefur áður veitt 107 sentímetra lax og var það í Vatnsdalnum fyrir nokkrum árum í veiðistað sem heitir Bjarnasteinn.