Þetta er stór spurning, en margir spyrja sig einmitt þessarar spurningar eftir tvö erfið sumur í laxveiði á Íslandi. Auðvitað voru undantekningar en heilu landssvæðin voru ekki að skila þeirri veiði sem búist var við, bæði af fiskifræðingum og reynsluboltum.
Við munum á morgun klukkan 17:30 streyma klukkustundarlöngu spjalli um stöðuna. Fyrst verða þrír frummælendur sem hver um sig fer yfir stöðuna á fimm mínútum. Fyrstur Guðni Guðbergsson sviðsstjóri ferskvatnssviðs hjá Hafró. Því næst er það framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga, Elías Blöndal Guðjónsson og loks Páll Magnússon alþingismaður sem fulltrúi hins almenna veiðimanns.
Eftir framsögurnar verða pallborðsumræður. Þar verður leitast við að svara spurningunni. Hvað er að gerast í laxveiði á Íslandi? Þátttakendur í umræðunum eru Bjarni Júlíusson, Einar Páll Garðarsson, Árni Baldursson og Arthúr Bogason. Allir eru þeir reynsluboltar í stangaveiði til áratuga.
Fundarstjóri er Einar Falur Ingólfsson, ljósmyndari og veiðiblaðamaður. Eggert Skúlason stjórnar pallborðsumræðunum.
Mbl.is og Sporðaköst standa saman að fundinum í samstarfi við Veiðihornið í Síðumúla. Eins og fyrr segir verður fundinum streymt beint á mbl.is og verður efnið aðgengilegt á síðu Sporðakasta eftir að útsendingu lýkur.