Sá stærsti úr Kvíslinni kominn í kistu

Matthías Þór Hákonarsson með stærsta laxinn úr Mýrarkvísl í nokkurn …
Matthías Þór Hákonarsson með stærsta laxinn úr Mýrarkvísl í nokkurn tíma. Þessi mældist 103 sentímetrar og er sá stærsti sem Matti hefur landað. Hængurinn er kominn í kistu. Ljósmynd/Aðsend

Stærsti laxinn úr Mýrarkvísl veiddist í gær. Þetta var fullorðinn hængur og sá stærsti í nokkur ár í Kvíslinni. Það var enginn annar en Matthías Þór Hákonarson leigutaki sem veiddi þennan stórlax. Þetta er hans stærsti fiskur á ævinni og það sem eykur enn frekar á gleðina er að hann tók heimasmíðaða flugu sem hann kallar Scary Ghost.

Hængurinn mældist 103 sentímetrar og veiddist í veiðistað 24, eða Ármótum syðri. Matti var búinn að fá 99 sentímetra fisk í þessum sama hyl í sumar, en loksins braut hann 100 sentímetra múrinn.

„Ég er búinn að veiða svo marga sem hafa mælst 99 sentímetrar að það var virkilega ánægjulegt að komast yfir hundrað sentímetra múrinn,“ sagði Matti í samtali við Sporðaköst.

Þetta er heimasmíðaða flugan Scary Ghost sem hann tók. Hagl …
Þetta er heimasmíðaða flugan Scary Ghost sem hann tók. Hagl fyrir framan til að þyngja enn frekar. Stundum þarf að sækja þá djúpt. Ljósmynd/Aðsend

Mýrarkvísl hefur skapað sér sérstakt nafn í hugum veiðimanna eftir að hin vinsæla kvikmynd, Síðasta veiðiferðin var tekin upp þar í fyrra.

Sporðaköst óska Matta til hamingju með stórlaxinn og persónulegt met. Þessi mikli hængur er kominn í klakkistu og verður notaður til undaneldis. Matti vonar að þessi gen mun fjölga stórlöxum í Mýrarkvísl.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira