Veiðiumfjöllun Sporðakasta hefst á nýja leik frá og með deginum í dag. Enn eru nokkrir dagar í að formlegt veiðitímabil hefjist, en við getum bara ekki setið á okkur lengur. Umfjöllunin verður með hefðbundnu sniði og byggist fyrst og fremst á fréttaþjónustu um allt sem viðkemur veiði og veiðiskap.
Þetta er fjórða árið sem Sporðaköst flytja veiðifréttir hér á mbl.is og eins og fyrri ár er bakhjarl síðunnar Veiðihornið í Síðumúla.
Vorveiðin hefst á fimmtudag, sem er 1. apríl og um leið skírdagur. Veðurspáin fyrir páskana er býsna kuldaleg en ljóst að ákaft veiðifólk mun ekki láta það stöðva sig. Tugir ef ekki hundruð munu hefja veiðar þennan dag á þeim fjölmörgu svæðum sem opnast. Flestra augu beinast að sjóbirtingssvæðum í Vestur-Skaftafellssýslu en einnig munu margir sækjast eftir sambandi við urriða í Þingvallavatni og víðar.
Veiðimaður vikunnar verður fastur þáttur hjá okkur í ár og einnig flugur vikunnar, þar sem við munum njóta reynslu og þekkingar Ólafs Vigfússonar í Veiðihorninu.
Þá stefnum við að því að taka sjónvarpsviðtöl við veiðifólk og aðra þá sem tengjast sportinu.
Lóan er komin, Sporðaköst eru mætt á sinn stað og stutt í bognar stangir.