Ekki veitt í Eldvatnsbotnum í ár

Eldvatn er með þekktari sjóbirtingsveiðisvæðum landsins. Efsti hluti svæðisins, Eldvatnsbotnar …
Eldvatn er með þekktari sjóbirtingsveiðisvæðum landsins. Efsti hluti svæðisins, Eldvatnsbotnar verða ekki í boði fyrir veiðimenn í sumar. Mynd: www.svfr.is

Ekki verður veitt í Eldvatnsbotnum í Meðallandi þetta árið. Kjartan Ólafsson ábúandi að Botnum, jörðinni sem á svæðið, staðfesti þetta í samtali við Sporðaköst. Samningur við Stangaveiðifélag Reykjavíkur rann út að loknu síðasta veiðisumri og var ekki endurnýjaður. Félagið hefur haft svæðið á leigu lungann úr þessari öld.

Kjartan segir að veiði hafi dalað á undanförnum árum. Hann telur rétt að hvíla svæðið og sjá hvort nýliðun gengur betur. Um er að ræða efsta hluta Eldvatnsins í Meðallandi og hafa verið seldar tvær stangir á svæðinu. Það er ríflega kílómetra langt og er í raun tvær kvíslar. „Þetta hefur verið að dala. Var komið niður í einhverja fimmtíu fiska á sumri en var þegar best lét þreföld sú veiði. Svo er þannig komið að bleikjan, sem var í töluverðu magni, er algerlega horfin. Ég held að það sé bara rétt að hvíla þetta núna og meta stöðuna eftir sumarið,“ sagði Kjartan.

Hann segir hrygningarskilyrði erfið í Eldvatni. Þar sé harður botn og sandur á hreyfingu en vanti algerlega möl sem býður upp á bestu skilyrðin.

„Mér fannst líka að áhugi á svæðinu hefði minnkað meðal veiðimanna og væntanlega helst það í hendur við hnignandi veiði. Þegar menn stunda veiða og sleppa þá er erfitt að meta hversu mikið er af fiski á svæðinu. Eitthvað af þessu er að veiðast oftar en einu sinni og því veit maður í raun ekki hversu mikið er af honum.“

Nú hefur gengið vel í neðri hluta Eldvatns og þar hefur öllu verið sleppt nú um árabil og maður sér að fiskurinn er að stækka. Er það ekki að skila sér upp í Eldvatnsbotna?

„Jú, hann hefur verið að stækka, en á móti eru þeir bara færri,“ sagði Kjartan. Spurður um hvarf bleikjunnar og hvort hann kunni skýringar á því, svarar hann neitandi. „Á hún ekki bara víða undir högg að sækja?“ spyr hann á móti.

En á þessu magnaða svæði verður sem sagt ekki veitt í sumar og munu eflaust einhverjir veiðimenn sakna þess að komast ekki í Eldvatnsbotna.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert