Settu í átján birtinga í beit

Arnar Óskarsson með 86 sentimetra hrygnu úr Ármótum. Sannkallaða sleggju. …
Arnar Óskarsson með 86 sentimetra hrygnu úr Ármótum. Sannkallaða sleggju. Þessi tók Black Ghost. Ljósmynd/GJÓ

Geirlandsá er ein af þessum spennandi sjóbirtingsám í námunda við Kirkjubæjarklaustur. Veiði hófst þar í gær og var býsna róleg framan af degi. Það hvessti aðeins seinni hluta dags og við það kom örlítil litabreyting í ána. Það gerði gæfumuninn.

„Hún var mjög vatnslítil í gærmorgun og kristaltær. Þegar leið á daginn kom svona örlítið musk í hana. Þetta var ekki mikið og svona rétt að maður áttaði sig á litabreytingunni. Þetta munaði þó því að í dýpstu hyljunum sást ekki í botn,“ sagði Gunnar J. Óskarsson formaður SVFK í samtali við Sporðaköst.

Þeir bræður Arnar og Gunnar fóru í leiðangur síðdegis í gær og fundu fiskinn þegar styttist í ljósaskiptin. „Við áttum þarna magnað kvöld. Við settum í átján birtinga í beit. Hann var á í hverju kasti. Arnar bróðir landaði einni sleggju 86 sentimetra og við misstum fisk eftir mikla baráttu sem var svo sannarlega 90 plús. Hann stökk og við sáum hann mjög vel.“

Þessir eru að gera gott mót í Geirlandsá. Frá vinstri. …
Þessir eru að gera gott mót í Geirlandsá. Frá vinstri. Óli B. Bjarnason, Arnar Óskarsson, Óskar Gunnarsson og Gunnar J. Óskarsson. Ljósmynd/GJÓ

Í ljósi gærdagsins var fyrri hluti dags í dag nýttur í að standsetja veiðihúsið og koma nýjum mublum fyrir og gera og græja, eins og Gunnar orðaði það. Þeir stefna á að endurtaka leikinn síðdegis í dag í Ármótum. 

Já var þetta í Ármótum, þar sem þið settuð í hann í gær?

„Þetta var nú eiginlega svona hálfgert No name. Auðvitað köllum við þetta Ármót en það er spurning hvað þau eiga að ná langt. Við vorum búnir að fá fiska til að elta fyrr um daginn og jafnvel þrír eða fjórir sem fylgdu flugunni en þeir voru ekki að taka. En þetta var heldur betur spennandi,“ sagði Gunnar að lokum.

Tuttugu punda tröll sem fór

Eins og við greindum frá í gær var góð veiði í Tungufljóti og Syðri-Hólmur geymir mikið af fiski. Seint í gær var heimildamaður okkar, Sigurður Guðmundsson, að kasta neðarlega í Syðri-Hólmi þegar hann fékk mikla neglingu. „Ég átti aldrei séns,“ sagði hann í samtali við Sporðaköst í morgun. 

Sigurður Guðmundsson tekst á við tröllið. Allt í botni og …
Sigurður Guðmundsson tekst á við tröllið. Allt í botni og afstaða stangarinnar sýnir hversu langt er í fiskinn. Hann segist aldrei hafa átt séns í þennan. Ljósmynd/Aðsend

„Ég herti bremsuna eins og ég þorði en það skipti bara engu máli. Hann svínbeygði tvíhenduna og það söng í öllu. Ég heyri enn þytinn í línunni í hausnum á mér. Ég sá þennan fisk aldrei og hann tók út alla flugulínuna og var að klára undirlínuna þegar ég sleit úr honum. Krafturinn var slíkur að ég hef aldrei upplifað annað eins. Og það var tekið á þessum fiski,“ sagði Sigurður Guðmundsson. „Þetta var stóri draumafiskurinn.“

Opnunardagurinn hjá hollinu endaði í 24 fiskum og þó nokkrum misstum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira