Hátæknileg veiði í Galtalæk

Hér er Aron Jarl með gamlan höfðingja úr Fosshyl í …
Hér er Aron Jarl með gamlan höfðingja úr Fosshyl í Galtalæk. Þessi mældist 55 sentímetrar. Þeir félagar settu í tíu fiska en einungis þremur var landað. Ljósmynd/IÖB

Það er ekki á allra færi að gera góða veiði í Galtalæk. Tveir félagar fóru þangað í gær og lentu í skemmtilegri veiði en þetta eru menn sem þekkja urriðann þarna mjög vel. Þeir Aron Jarl Hillers og Ingólfur Örn Björgvinsson fóru í Galtalækinn í Landsveit í gær.

Veiðileyfi þarna eru í öðrum verðflokki en víða. Tvær stangir eru seldar á 19.500 krónur dagurinn.

Sporðaköst náðu tali af Aroni Jarli. Hann sagði veiðina í læknum vera mjög tæknilega. Hann og Ingólfur félagi hans voru að euronympha og settu í níu flotta urriða. Flestir misstust en hver taka er sigur við þessar aðstæður.

„Við erum báðir með tíu feta fjarka sem eru mjög mjúkar stangir og notum pínulitlar pöddur. Þetta er allt sjónveiði þar sem við sjáum fiskinn vel og leggjum fluguna rétt fyrir framan fiskinn og drögum hana svo hratt upp. Þá virðist þetta vera púpa sem er að klekjast og þeir elta upp og taka. Það er mikið föndur á bak við þennan veiðiskap.

Þetta eru flugurnar sem hann var að taka. Sextán og …
Þetta eru flugurnar sem hann var að taka. Sextán og niður í tuttugu. Ljósmynd/IÖB

Við vorum mættir um níuleytið og lögðum við bæinn og þurftum að labba nokkra vegalengd í frekar miklum snjó. Við skimuðum yfir nokkra staði og sáum eitthvað af fiski. Hann er búinn að vera þarna allan veturinn. Við byrjuðum uppi í Fosshyl og sáum að það kom smá hreyfing á fiskinn þegar við komum þarna. En við gáfum okkur góðan tíma og tókum eftir því í byrjun að fiskurinn var ekkert að éta. Svo þegar hitastigið hækkaði upp úr klukkan ellefu þá fóru þeir að éta. Við sáum að þeir voru að opna munninn og byrjaðir að taka púpur eða flugur,“ sagði Aron Jarl í samtali við Sporðaköst.

Hann segir Fosshylinn frekar erfiðan veiðistað þar sem fiskurinn á góða möguleika en Ingólfur setti fljótlega í fisk. Sá lak af, rétti einfaldlega úr króknum og sagan endurtók sig æði oft. Þarna eru stórir fiskar og veiðistaðurinn stundum kallaður Elliheimilið af þeim sem þekkja til. Ingólfur missti sex fiska í Fosshylnum. Þeir voru að setja i stóra fiska, sextíu plús sentímetra á flugur númer 16 til 20.

Ingólfur Örn Björgvinsson með flottan urriða úr Galtalæk. Mikið áhersla …
Ingólfur Örn Björgvinsson með flottan urriða úr Galtalæk. Mikið áhersla er lögð á að fara varlega með fiskinn og ber að sleppa öllum urriðum. Ljósmynd/AJH

Samtals settu þeir félagar í tíu fiska og lönduðu þremur. Þetta er staðbundinn urriði sem heldur sig í Galtalæknum og búið er að veiða marga þeirra oft. Eins og Aron Jarl lýsir þessu þá kallar hann þetta einstaklingsveiði. „Þessir fiskar eru búnir að sjá allt sem til er og erfitt að fá þá til að taka. Bóndinn á bænum talaði um að það sem hann væri að éta á þessum tíma væri vetrarmý. Við vorum því að kasta Héraeyra átján og niður í tuttugu. Líka vorum við með smáar Pheasant Tail og ég fékk einn á Blóðorm sextán. Þetta eru svo sterkir fiskar að hver fiskur tók langan tíma og af þessum tíu sem við settum í lönduðum við bara þremur. Sá stærsti var sextíu sentímetrar og mjög gamall höfðingi.“

Aron Jarl var að fara í þriðja skiptið í Galtalæk en Ingólfur þekkir svæðið mjög vel og nýtur Aron Jarl góðs af því.

„Þetta eru klárir fiskar og það þarf að spila svolítið á þá. Þessi lækur hentar fyrst og fremst þeim sem eru komnir aðeins lengra í púpuveiðinni,“ sagði Aron Jarl að lokum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert