Urriðaveisla á ION-svæðinu

Nils Folmer með glæsilegt eintak af ísaldarurriða af ION-svæðinu. Opnunarhollið …
Nils Folmer með glæsilegt eintak af ísaldarurriða af ION-svæðinu. Opnunarhollið var með 75 urriða. Ljósmynd/Aðsend

Það hefur verið sannkölluð urriðaveisla á hinu rómaða ION-svæði í Þingvallavatni. Veiði hefur ekki hafist svona snemma áður. Nú var opnunardagurinn 1. apríl en áður var miðað við 15. apríl. Einn af þeim sem tók þátt í veisluhöldum í Þorsteinsvík og Ölfusvatnsárósi er Nils Folmer Jörgensen. Fyrstu tveir veiðidagarnir gáfu yfir 130 urriða.

Þeir urriðabræður, Nils og Jóhann Hafnfjörð Rafnsson. Menn höfðu ástæðu …
Þeir urriðabræður, Nils og Jóhann Hafnfjörð Rafnsson. Menn höfðu ástæðu til að brosa. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef ekki veitt svona snemma á svæðinu en þetta er búið að vera hreint alveg magnað. Það kom mér á óvart hversu aktívur fiskurinn er og að bæði svæðin séu inni. Ég handlék og sleppti sautján urriðum á fyrsta einum og hálfa klukkutímanum í gær. Svo hætti hann allt í einu að taka. En miðað við að við erum að tala um byrjun apríl, þá get ég ekki beðið eftir að sjá hvað verður hér í boði þegar kemur fram í maí sem er besti tíminn, oftast,“ sagði Nils í samtali við Sporðaköst.

Olive Ghost. Þessa þurfa allir að hafa meðferðis ef reynt …
Olive Ghost. Þessa þurfa allir að hafa meðferðis ef reynt er við urriða. Ljósmynd/NFJ

Sterkasta flugan í morgun var Olive Ghost og hefur þessi fluga verið að gera frábæra hluti í Þingvallavatni og víðar síðustu árin. Þessi verður að vera í boxinu þegar farið er í urriða. 

Opnunardagurinn á ION skilaði 60 urriðum og í gær var 75 landað, sem er hreint út sagt mögnuð veiði. En aðstæður á svæðinu eru frá náttúrunnar hendi frábærar. Volgar uppsprettur gera það að verkum að urriðinn leitar inn á svæðið til að hraða meltingu í hlýrra vatni og má því oft sjá hann í stærðarinnar torfum.

Árni Kristinn Skúlason fagnar urriða sem hann veiddi í landi …
Árni Kristinn Skúlason fagnar urriða sem hann veiddi í landi Kárastaða. Ljósmynd/Aðsend

Veiði á öðrum urriðasvæðum í Þingvallavatni hefur verið ágæt. Kárastaðir hafa verið að gefa flotta fiska. Næstu dagar líta ekki alveg jafn vel út, veðurspáin gerir ráð fyrir mikilli kólnun og víða mun frjósa í lykkjum hjá veiðimönnum næstu daga.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira