Fékk á Kavíarinn í Þjórsá

Helga Gísladóttir með 88 sentímetra birting úr Geirlandsá um nýliðna …
Helga Gísladóttir með 88 sentímetra birting úr Geirlandsá um nýliðna páska. Ljósmynd/MHM

Helga Gísladóttir er veiðimaður vikunnar að þessu sinni. Hún lýsir sjálfri sér með þessum orðum: „Með sjúklega veiðidellu.“ Hún hefur verið býsna iðin þessa fyrstu daga veiðitímans og hefur meðal annars veitt í „bæjarlæknum“, en líkast til er það stærsti bæjarlækur í heimi. Þetta er nefnilega sjálf Þjórsá. Þá hefur hún farið með eftirlætisveiðifélaganum, Maríu Hrönn Magnúsdóttur, í Geirlandsá. Þar eyddu þær nýliðnum páskum við að elta sjóbirtinga í hörkugaddi og veiddu vel.

Flugan Kavíar sem Helga hannaði og hefur þegar fengið fiska …
Flugan Kavíar sem Helga hannaði og hefur þegar fengið fiska á. Þar á meðl í Þjórsá. Ljósmynd/HG

Nú er hún stödd í Vatnamótum í miklu úrhelli og kakólitaðri á. En það stöðvar ekki veiðikonu vikunnar. „Þetta eru ekki bestu skilyrðin,“ hlær hún þegar spurt er hvernig gengur. „Búnar að fá einn titt. Við fundum vatnaskil á einum stað og náðum honum þar. Vonandi verður þetta þó betra á morgun og áin sjatnar eitthvað.“

Helga er í stjórn kvennadeildar Stangaveiðifélags Reykjavíkur ásamt Maríu Hrönn, sem er ekki með minni veiðidellu.

Helga segist vera með sjúklega veiðidellu.
Helga segist vera með sjúklega veiðidellu. Ljósmynd/MHM

Flugan Kavíar sem Helga hannaði í vetur hefur vakið nokkra athygli. Hún er eiginlega ólík öllum flugum sem undirritaður hefur séð. Og hún hefur verið að gefa og það á fyrsta degi veiðitímans. Þá fékk hún sjóbirting í Þjórsá á þessa nýju flugu.

Eins og nafn og útlit flugunnar bendir til ertu að líkja eftir hrognaklasa. Rétt?

„Já, algjörlega. Þetta er bara gömul minning frá því að maður var lítil. Þá veiddi ég oft á hrogn í bæjarlæknum. Maður var með þríkrækju og festi hrognin á með tvinna eða einhverju sambærilegu. Mig langaði að yfirfæra þetta yfir í fluguveiðina og þetta er aðferðin sem mér finnst virka. Það skemmdi svo ekkert fyrir að fá sjóbirting á þetta strax fyrsta veiðidaginn, 1. apríl.“

Með munninn fullan af Kavíar.
Með munninn fullan af Kavíar. Ljósmynd/HG

Helga er gríðarlega spennt fyrir veiðisumrinu. „Ég er með rosalega mikið bókað og ég veit að þetta verður æðislegt sumar. Þetta verður svolítið merkilegt sumar. Er að fara með gamla Stöðvar 2-genginu upp í Veiðivötn þrítugasta árið í röð. Það eru alltaf frábærar ferðir. Svo er ég líka að fara með kvennaholli í Veiðivötn síðar um sumarið. Svo er það Andakílsá, Langá og eitthvað fleira,“ segir hún og spennan er merkjanleg.

Skyndilega segir hún: „Þessar aðstæður hér í Vatnamótum í dag voru ekki bara brekka. Þetta var fjall. Nú er hins vegar hætt að rigna og komið logn, í það minnsta hér uppi við hús. Við erum vonandi að fara í skemmtilegar aðstæður í fyrramálið.“

Sporðaköst senda baráttukveðjur á þær vinkonur og veiðifélaga.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.
100 cm Blanda Neil Boyd 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jörgensen 4. júlí 4.7.

Skoða meira