Slóst við tíu kílóa sleggju í hálftíma

Sveinbjörn Jónsson með þennan glæsilega sjóbirting. Fiskurinn mældist 95 sentímetrar …
Sveinbjörn Jónsson með þennan glæsilega sjóbirting. Fiskurinn mældist 95 sentímetrar og ummálið var 50 sentímetrar. Ljósmynd/VS

Sveinbjörn Jónsson og Valur Sigurðsson lentu í ævintýri í Eyjafjarðará á svæði eitt nú rétt fyrir helgi. Þeir voru við krefjandi aðstæður en létu sig engu að síður hafa það. „Það voru allavega fimmtán metrar á sekúndu og vindurinn stóð beint niður ána,“ upplýsir Svenni um aðstæður.

Hann og Valli í Veiðiríkinu komu að Munkaþverárbreiðu og Svenni setti undir Black Ghost Skull. „Ég vissi strax að þetta var stór fiskur. Þetta var ekkert ofsafengin taka. Hún var frekar róleg, hann saug fluguna upp í sig. Ég var með 10,6 feta switch-stöng og tók hressilega á honum. Samt tók þessi viðureign hálftíma,“ sagði hann í samtali við Sporðaköst. Ritstjóri síðunnar hefur oft veitt með Svenna og veit að hann tekur mjög hraustlega á fiskum og þeir eru ekki margir sem hafa handleikið fleiri fiska í yfirstærð, en þá fyrst og fremst laxa.

Fiskurinn er í mjög góðum holdum og Svenni er klár …
Fiskurinn er í mjög góðum holdum og Svenni er klár á að hann er búinn að fara í Pollinn og éta hressilega. Ljósmynd/SJ

„Þetta var svakalegur eltingaleikur og hann fór með mig lengst niður eftir. Svo þegar ég hélt ég væri að landa honum þá tók hann strauið aftur út í miðja á og þaðan bara upp aftur. Við loksins lönduðum honum og Valli átti ekki séns á að ná utan um sporðinn á honum. Við náðum mjög góðri mælingu á hann. Notuðum ekki háf heldur strönduðum honum og hann lá alveg kyrr. Lengdin var 95 sentímetrar og ég tók ummálið líka og það var alveg strekkt 50 sentímetrar utan um belginn á honum. Það fer ekkert á milli mála að þessi er búinn að fara í sjó og éta vel.“

Svenni segist hafa heyrt að rannsóknir við Eyjafjarðará hafi sýnt að sumir þessara fiska eru að fara þrisvar sinnum niður í Pollinn eða sjóinn utan við Akureyri og fari svo upp í ána aftur.

Þeir félagar höfðu góðan tíma til að mæla fiskinn nákvæmlega.
Þeir félagar höfðu góðan tíma til að mæla fiskinn nákvæmlega. Ljósmynd/VS

„Orkan í þessum fiski var rosaleg. Stöngin var nánast í vinkil þegar hann var að taka rokurnar.“

Hvað er þetta þungur fiskur, ef þú giskar?

„Ég held að hann sé rúm tíu kíló. Hann er yfir tíu kíló. Í miðri viðureigninni sagði ég við Valla: Það getur ekki verið að þetta sé lax. Hann svaraði já, mér var svona farið að detta það í hug,“ hlær Svenni.

Við ræðum stöðuna á birtingi í Eyjafjarðará. Svenni segist hafa á tilfinningunni að meira sé af fiski og hann sé stækkandi. „Það er mikið af fiski á bilinu 70 til 80 sentímetrar sem eru náttúrlega svaka flottir fiskar.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira