Ekki upplifað svona mikla veiði í 20 ár

Tvær bleikjur á í einu. Einar Falur lenti svo sannarlega …
Tvær bleikjur á í einu. Einar Falur lenti svo sannarlega í ævintýrum í Hlíðarvatni fyrr í vikunni. Ljósmynd/Einar Falur

Við hittum veiðimann vikunnar að þessu sinni á sínum vor heimavelli. Hér er mættur Einar Falur Ingólfsson, veiðiblaðamaður og ljósmyndari. Við erum staddir við Hlíðarvatn í Selvogi og það er fjör. Þar sem Einar Falur mundar flugustöng er sjaldnast langt í Þorstein J. fjölmiðlamann og veiðigúrú. Þeir veiðibræður gerðu góða veiði kvöldið áður. Fengu þá töluvert af bleikju og margar hverjar afar fallegar.

Þegar Sporðaköst hitta á Einar Fal þá er Þorsteinn Joð hvergi sjáanlegur. Hvar er kallinn?

„Hann þurfti að fara í bæinn í gærkvöldi því hann var að fá til sín smið sem hann er búinn að bíða lengi eftir,“ sagði Einar Falur. Hann var sjálfur að hætta þó að enn væri töluvert eftir af veiðitímanum.

Þessari smellti hann sjálfur af sér orðinn þreyttur eftir öll …
Þessari smellti hann sjálfur af sér orðinn þreyttur eftir öll átökin. En sumarið er komið í hann. Ljósmynd/Einar Falur

„Þessi dagur er búinn að vera svo mikið ævintýri að það er með ólíkindum,“ segir Einar Falur.

„Ég hef veitt í Hlíðarvatni í tuttugu ár, og oft vel. Auðvitað misvel eins og gengur. Ég man eftir mögnuðum þjóðhátíðardegi fyrir einhverjum sautján árum. Ég sleppti skrúðgöngunni en lenti í einhverri mestu aflahrotu sem ég hef upplifað hér. Ég landaði átján bleikjum í beit í Skollabollum. Það var mjög skemmtilegt þegar ég kem labbandi til baka, þá geng ég framhjá jeppa sem hafði staðið þarna í nokkurn tíma. Skyndilega opnaðist hurðin og út gaus mikill vindlareykur. Þá var þar mættur Kolbeinn Grímsson sá mikli höfðingi. Hann spurði mig hvort ég hefði fengið sautján. Ég sagði þær vera átján. Hann hafði fylgst með mér að veiða allan tíman. Það var mjög gaman að hitta þarna höfund Peacocksins, sem hannaði þessa flugu einmitt með Hlíðarvatnið í huga.“

Þorsteinn Joð veiðir undir gosmekki, áður en smiðurinn hringdi.
Þorsteinn Joð veiðir undir gosmekki, áður en smiðurinn hringdi. Ljósmynd/Einar Falur

Þetta er samt bara aðdragandi að því sem Einar Falur er að fara að segja varðandi miðvikudaginn.

„Þetta var stórfurðulegur dagur. Ég var í látlausri töku, landaði sextán bleikjum á tveimur tímum fyrir hádegi í Gömlu vör. Ég ákvað bara að hætta, þetta var orðið gott. Og oft er það einmitt með bleikjuna að maður lendir í svo tökugleði og svo deyr þetta. Því var ekki að heilsa. Ég labbaði burt úr stanslausri töku.“

Einar Falur veiðir mikið og myndar í Vopnafirði. Hér er …
Einar Falur veiðir mikið og myndar í Vopnafirði. Hér er hann með stórlax, nýgenginn. Þessi er úr Hafralónsá, ekki langt frá. Ljósmynd/ÞJ

Einar Falur fékk sér að borða og hvíldi sig aðeins. Hann ákvað að fara á veiðistaðinn Hlíðarey. Aðeins var farið að blása og sá staður hentaði betur upp á vindátt að gera. Í fyrsta kasti setti hann í bleikju og það sem meira var að hann var með tvær á í einu. Bæði á dropperinn og fluguna.

„Þarna lenti ég í sama ævintýri. Það var svona fimmta hvert kast þar sem ég var ekki var við fisk. Það var í raun endalaus taka. Mest var hún að taka létt dressaðan Krók og svo var Peacockinn að gefa og Pheasant Tail og nokkrar tóku lítinn Blóðorm númer sextán. Þegar upp var staðið landaði ég fimmtán í Hlíðarey á einum og hálfum tíma. Ég endaði svo á kasta nokkur köst í Austurneshólmum, missti tvær og háfaði eina. Þá sagði ég þetta gott enda kominn með nokkurn aðgerðakvíða. Samtals landaði ég 38 bleikjum og hirti um það bil helming en sleppti hinum. Tvær náðu 54 sentímetrum, slatti var á bilinu 45 til 47 sentímetrar en flestar 36 til 38 sentímetrar.“

Síðustu helgina í apríl mæta veiðifélögin að Hlíðarvatni og plokka …
Síðustu helgina í apríl mæta veiðifélögin að Hlíðarvatni og plokka og ditta að húsum. Ef tími gefst eru tekin nokkur köst. Einar Falur náði þessari hlussubleikju við það tækifæri. Ljósmynd/ÞJ

Einar Falur veltir því fyrir sér hvort eldsumbrot og jarðskjálftar í nágrenninu spili inn í. Hann hefur allavega aldrei upplifað annan eins dag við Hlíðarvatn eins og hann gerði á miðvikudag. Sem betur fer ekki hægt útskýra hvað olli.

Mér verður hugsað til Þorsteins Joðs, að missa af þessu ævintýri. En eins og Einar Falur bendir á, þeir áttu frábært kvöld deginum áður. Nú var Einar Falur að drífa sig heim til klára flökun og frágang fyrir leik sinna manna í Meistaradeildinni. Chelsea er að spila við Real Madrid og sæti í úrslitum er undir. Einar Falur sagðist vera með góða tilfinningu fyrir leiknum. Auðvitað reyndist það svo rétt.

„Nú er sumarið komið hjá mér. Ég mæti yfirleitt hingað á vorin til að taka á móti því. Hitta himbrimann, sjá fluguna taka við sér og græna litinn verða til. Að sjálfsögðu spilar bleikjan svo stærsta stefið í þessu tónverki. Sumarið er komið í mig.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Laxá í Aðaldal Magni Jónsson 2. ágúst 2.8.
100 cm Selá í Vopnafirði Tim Dyer 1. ágúst 1.8.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.

Skoða meira