Mikið af stórlaxi og fiskur vel haldinn

Christoffer Nilsson með Mörrumlax sem vó 11,4 kíló. Þessum var …
Christoffer Nilsson með Mörrumlax sem vó 11,4 kíló. Þessum var landað á laugardag, Ljósmynd/Stefan Enevoldsen

Eftir kuldakafla sem frestaði vorinu í Svíþjóð eru skilyrði í einni þekktustu laxveiðiá landsins orðin mjög góð. Áin Mörrum er eitt af stóru nöfnunum í laxveiðiheiminum. Áin geymir mjög stórvaxinn laxastofn og einnig er sjóbirtingurinn í henni í yfirstærð.

Stefan Enevoldsen sem á og rekur Fiskeshopen Mörrum, sem er veiðibúð sem stendur á bakka árinnar, sagði í samtali við Sporðaköst að aðstæður nú væru frábærar. „Flestir fiskarnir eru yfir hundrað sentimetrar og eru að vigta tíu til þrettán kíló. Auðvitað eru minni innan um en þetta er hefðbundið í vorfiskinum hjá okkur.“

Enevoldsen segir að vorinu hafi verið frestað um tæpar þrjár vikur í Svíþjóð vegna kuldakafla sem ríkti fyrri hluta maí. „Núna er þetta allt orðið eins og á að vera og ljóst að við erum að fá sterka daga, það sem eftir lifir mánaðarins. Þá er ástæða til að vera bjartsýnn fyrir júnímánuð. Við sjáum svona um miðjan júní hversu gott sumarið verður.“

Síðustu daga hafa birst fjölmargar myndir af glaðhlakkalegum veiðimönnum með silfurbjarta stórlaxa. Athygli vekur að veiðistaðirnir í Mörrum eru einungis númeraðir, en virðast ekki hafa nöfn eins og tíðkast víðast hvar.

Einn af fimm löxum sem veiddust fyrir hádegi í Mörrum …
Einn af fimm löxum sem veiddust fyrir hádegi í Mörrum í dag. Sá minnsti var 95 sentimetrar og sá stærsti vó 12,25 kíló. Hér er Hakan Palm með alvörustórlax. Ljósmynd/Stefan Enevoldsen

Enevoldsen upplýsir að laxinn komi vel haldinn úr sjó og nefnir sem dæmi fisk sem veiddist í gær. „Veiðimaðurinn Aik Boymann landaði 102 sentimetra fiski og hann vó 11,97 kíló. Þannig að við erum að sjá að laxinn hefur þrifist vel og haft nægilegt æti.“

Aik Boymann þessi var til umfjöllunar í Sporðaköstum í maí 2019 og þá fyrir að landa einum stærsta laxi úr Mörrum á þessari öld. Sá lax mældist 118 sentimetrar og vó 19,3 kíló.

Nú er bara að vona að þessir flottu stórlaxar í Mörrum séu fyrirboði þess að íslensku stórlaxarnir og raunar allir laxarnir hafi haft það gott og snúi senn til lands í miklu magni.

Aik Boyman með risalaxinn úr Mörrum í maí 2019. Hann …
Aik Boyman með risalaxinn úr Mörrum í maí 2019. Hann mældist 118 sentimetrar og vigtaði 19,3 kíló. Ummálið var 71 sentimetri. Ljósmynd/Stefan Enevoldsen

Íslenskir veiðimenn velkomnir til Noregs

Í Facebook-færslu frá hinni þekktu stórlaxaá í Noregi, Gaula, kemur fram að norska ríkisstjórnin mun frá og með fimmtudeginum 27. maí opna landamærin fyrir veiðimönnum frá Íslandi, Finnlandi og Grænlandi án þess að menn þurfi að fara í Covid-skimun eða sæta sóttkví. Miðað er við að landamærin verði opnuð fyrir veiðimönnum frá þeim löndum þar sem færri en 25 smit eru á hundrað þúsund íbúa. Í sömu færslu er sagt líklegt að Noregur muni samþykkja bólusetningarvottorð frá löndum Evrópusambandsins í lok júní.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira