„Var alls ekki viss hvor væri sterkari“

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra með stórglæsilegan hæng sem hann veiddi …
Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra með stórglæsilegan hæng sem hann veiddi á Brotinu í Norðurá í morgun. Fiskurinn tók Hauginn númer Fjórtán. Þorsteinn Stefánsson leiðsögumaður aðstoðar Guðna. Ljósmynd/Einar Falur

„Þetta var dýrðlegur morgunn og ég náði laxi á fyrsta klukkutímanum, eins og Einar Sigfússon spáði. Maður er bara sveittur af hamingju, eins og þegar maður var upp á sitt besta,“ sagði Guðni Ágústsson heiðursgestur í opnunarhollinu í Norðurá í morgun. Hann setti í stórlax eftir um það bil hálftíma, á Brotinu. Eftir drjúglanga viðureign landaði Guðni 87 sentímetra hæng með dyggri aðstoð Þorsteins Stefánssonar leiðsögumanns.

„Þetta var rétt fyrir ofan brotið sem hann tók hjá Guðna. Við létum fluguna skauta mjög hægt og þá kom hann upp og tók hana. Hér eru kjörskilyrði, vatnið um tuttugu rúmmetrar og hlýtt í veðri,“ upplýsti Þorsteinn leiðsögumaður, í samtali við Sporðaköst.

Guðni sagði þetta hafa verið mikinn bardaga og hann alls …
Guðni sagði þetta hafa verið mikinn bardaga og hann alls ekki viss um hvor væri sterkari. Hér stendur glíman yfir. Ljósmynd/Einar Falur

Guðni, varstu ekki stressaður með þinn fyrsta flugulax?

„Þú sérð það, þeir fá næstbesta netaveiðimann í heimi til að opna ána. Sá besti var náttúrlega sjálfur Jesús. En þegar ég var búinn að setja í þennan fisk þá var ég alls ekki viss um hvor væri sterkari. Þetta var heilmikil barátta. Ég var ekki að beita Brúnastaðakröftunum, heldur hinni pólitísku mýkt. Þorsteinn Stefánsson tryggði að þetta fór allt á besta veg.“

Guðni hefur mikla reynslu af laxveiði, en þá fyrst og fremst af netaveiði í Hvítá í Árnessýslu. Hann hefur einnig veitt á stöng, en þá fyrst og fremst með maðk. Nú í fyrsta skipti veiddi hann lax á flugu. 

Fyrsti flugulax Guðna reyndist vera stórglæsilegur 87 sentímetra hængur.
Fyrsti flugulax Guðna reyndist vera stórglæsilegur 87 sentímetra hængur. Ljósmynd/Einar Falur

Pólitíkin er aldrei langt undan þegar Guðni á í hlut. Hann segist hafa laumað lokki úr hári Lilju Alfreðsdóttur í fluguna sem var Haugur hitch á króki númer fjórtán. Það var að heyra á Guðna að hann ætti von á að Lilja landaði einhverju stóru á næstunni. 

„Mér leið eins og ljósmóður sem var að taka á móti sína fyrsta barni þegar ég kom höndum á laxinn,“ sagði Guðni Ágústsson og var greinilega í essinu sínu.

Einar Sigfússon var afskaplega ánægður með fyrstu stundir morgunsins og taldi það vita á gott að hængar væru mættir svo snemma og lýsti hann þessum degi sem „dýrðarinnar dásemd“.

Þorsteinn Stefánsson leiðsögumaður setti fram þá kenningu að nokkuð væri farið af fiski upp fyrir laxfoss og taldi hann koma til greina að það hefði gerst þegar áin var hlýrri og vatnsminni. Fróðlegt verður að sjá framhaldið. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira