Skjótt skipast veður í laxveiði að vori

Gísli Ásgeirsson, 83 sentimetra hrygna og Hilmar Jónsson í Norðurá …
Gísli Ásgeirsson, 83 sentimetra hrygna og Hilmar Jónsson í Norðurá í dag. Þeir sáu mikið líf og lönduðu tveimur löxum á Eyrinni. Ljósmynd/GÁ

Hlutirnir eru fljótir að breytast í laxveiðinni fyrstu daga veiðitímans. Norðurá skilaði sjö löxum í opnunarhollinu en nýtt holl tók við í dag á hádegi. Þar eru meðal annars að veiða Gísli Ásgeirsson og Hilmar Jónsson félagi hans. Þeir voru á Eyrinni fyrir neðan Laxfoss og lentu í hörkulífi. „Við erum búnir að landa tveimur og missa einn og höfum verið að reisa fiska og sjá hann velta sér og stökkva. Þetta er bara búin að vera frábær vakt,“ upplýsti Gísli í samtali við Sporðaköst í lok veiðitíma.

Þeir lönduðu 81 og 82 sentimetra hrygnum sem tóku hitch og litla plasttúpu í ætt við Sunray.

Önnur flott hrygna. Mikið líf var beggja vegna fyrir neðan …
Önnur flott hrygna. Mikið líf var beggja vegna fyrir neðan Laxfoss. Vatnið er frábært og verður spennandi að fylgjast með næstu dögum. Gísli sleppti þessari að lokinni myndatöku. Ljósmynd/HJ

Gísli sagði að veiðimenn sem voru á móti þeim, á Brotinu, hefðu landað einum fiski sem þeir sáu og misst þrjá fiska. Þetta er alger viðsnúningur frá því sem var fyrir sólarhring þegar Sporðaköst heyrðu í veiðimönnum sem voru á Eyrinni og sögðu hana alveg dauða.

Miðsvæðið sem kallast svo að vori í Norðurá var frekar rólegt, en líf var í Stekk og misstu veiðimenn fiska þar og sáu hann á ferðinni.

Í Blöndu landaðist einn í dag, en veiðimenn voru að sjá fiska skríða inn og Ársæll sem landaði fiski í Damminum að sunnanverðu missti flottan fisk skömmu síðar. Reynir Sigmundsson félagi hans sá „lurk“ í Holunni og einnig sá hann fisk uppi á Ennisflúðum.

„Félagar okkar á hinum bakkanum misstu fisk í löndun, bara rétt við háfinn. Það hefur lifnað yfir þessu núna seinni part dags,“ sagði Reynir.

Kannski er laxinn bara aðeins seinni á ferðinni en verið hefur, en fréttir dagsins gefa aukna bjartsýni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira