Veiðigyðjan verðlaunar oft ríflega

Aron Jarl með 66 sentímetra fisk úr Stöðvarhyl í Minnivallalæk.
Aron Jarl með 66 sentímetra fisk úr Stöðvarhyl í Minnivallalæk. Ljósmynd/JFG

Það er oft talað um að hitt eða þetta svæði sé háskóli í veiði. Talað hefur verið um að Elliðavatn sé þannig besti skólinn í vatnaveiði og Ásgeir Heiðar sagði nýverið að Laxá í Kjós væri háskólinn í laxveiði. Urriðalækirnir, Galtalækur og Minnivallalækur munu þá án efa flokkast sem framhaldsnám í veiði á staðbundnum urriða.

Óhætt er að segja að þeir Jóhann Freyr Guðmundsson og Aron Jarl Hillers hafi útskrifast með fyrstu einkunn úr lækjunum báðum um helgina.

Jóhann Freyr með nákvæmlega jafn langan, eða 66 sentímetra fisk, …
Jóhann Freyr með nákvæmlega jafn langan, eða 66 sentímetra fisk, líka úr Minnivallalæk. Ljósmynd/JFG

Þeir voru mættir til leiks í Minnivallalæk klukkan níu um morguninn. „Þetta er ótrúlega erfið og taktísk veiði. Maður þarf bara að breyta sér í þúfu þegar maður er að kasta og læðast með bakkanum til að styggja ekki fiskinn. Þessir staðbundnu urriðar eru líka svo varir um sig. Ef það er eitthvað sem honum finnst skrítið þá er hann bara farinn,“ sagði Aron Jarl í samtali við Sporðaköst.

Þeir félagar veiddu Minnivallalækinn fyrir hádegi og Galtalæk eftir hádegi. „Jói félagi minn var búinn að landa fjórum og missa eitthvað. Hann þekkir þessa læki svo rosalega vel. Við ætluðum að fara að segja þetta gott en ég endaði á nokkrum köstum í Stöðvarhyl. Ég var með blóðorm undir númer átján. Þá kom líka þessi svakalegi urriði og át orminn. Þetta var alveg geggjað. Það er svo magnað að fá svona stóra staðbundna urriða.“ Aron upplýsir að þessi urriði mældist 66 sentímetrar og eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum, þá má rétt svo greina þessar agnarsmáu flugur í kjaftvikinu. Jóhann félagi hans var þá nokkru áður einnig búinn að landa 66 sentímetra fiski.

Þessar flugur eru svo agnarsmáar, en þetta er það sem …
Þessar flugur eru svo agnarsmáar, en þetta er það sem hann vill. Ljósmynd/AJH

Eftir hádegi færðu þeir sig yfir í Galtalæk og þá tók einfaldlega við veisla og það fyrst í Fosshyl sem er efsti staður. „Í öðru rennsli sá ég stóran urriða breyta um stefnu og sá hann opna skoltinn og um leið og hann lokaði þá brást ég við honum. Við sáum fimm fiska í Fosshylnum og settum í þá alla.“

Aron segir að ástæðan fyrir því að þeir séu að nota svona litlar flugur sé að urriðinn hefur á þessum tíma mikið fæðuframboð og þessar púpur sem þeir eru að nota eru í ætt við rykmý eða eitthvað sambærilegt. Þeir voru ýmis með tökuvara eða bara í beinu sambandi. Þeir nota þyngri neðri flugu og stærri og er það fyrst og fremst til að ná betra sambandi og hafa meiri stjórn á taumnum. „Þessar litlu flugur eru mjög í takt við það sem þeir eru að éta og þessi aðferð virkar svo ótrúlega vel. Þennan dag var bara eitthvað í loftinu og þrátt fyrir mikið mý sem beit okkur hægri vinstri þá bara varð maður að halda áfram,“ hlær Aron.

Hér sést hluti af þeim púpum sem voru að gefa. …
Hér sést hluti af þeim púpum sem voru að gefa. "Stóra" púpan er á króki númer tólf. Ljósmynd/AJH

Þegar upp var staðið í Galtalæk höfðu þeir félagar landað ellefu flottum urriðum í Galtalæk þegar þeir hættu klukkan sjö um kvöldið. „Ég held að lækurinn hafi verið býsna vel hvíldur. Við settum í einhverja sextán fiska og misstum fimm. Þetta var magnaður dagur en maður þarf líka að muna að það tekur tíma að læra á þessa staði. Ég fór í Minnivallalæk fyrr í vor og gekk bara ekki neitt. Var með tvo fiska eftir einn og hálfan dag. Það alveg særði stoltið og maður var farinn að efast um sig sem veiðimann. En maður verður bara að fara aftur og aftur og læra meira og hlusta og drekka þetta í sig og þá kemur að því að maður fær verðlaun, eins og við gerðum um helgina.“

Einn af hlunkunum úr Galtalæk. Þeir félagar lönduðu samtals sextán …
Einn af hlunkunum úr Galtalæk. Þeir félagar lönduðu samtals sextán urriðum á þessum eina degi. Fimm úr Minnivallalæk og ellefu úr Galtalæk. Ljósmynd/JFG

Það vita það flestir veiðimenn að veiðigyðjan verðlaunar dugnað og elju og það er óhætt að segja að þeir félagar Aron Jarl og Jóhann Freyr hafi fengið rífleg verðlaun um helgina.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira