Laxanetum fækkar í Hvítá og Ölfusá

Vitjað um net í Ölfusá. Nú hefur verið samið um …
Vitjað um net í Ölfusá. Nú hefur verið samið um umtalsverða fækkun á netalögnum í Ölfusá og Hvítá. Samningurinn er til tíu ára. Mynd/mbl.is

Færri laxanet verða í sumar í Hvítá og Ölfusá. NASF á Íslandi greindi frá þessu nú fyrir skemmstu og sendu út fréttatilkynningu um að samningar hefðu náðst við nokkra af landeigendum á vatnasvæðinu til tíu ára. Með samningnum er ljóst að allt að fimm hundruð laxar eiga meiri möguleika á að komast á hrygningastöðvar. Stefnt er að því að ná samningum við fleiri landeigendur. Þetta eru tímamót því stangveiðimenn hafa gagnrýnt þessar netaveiðar á laxi. Fréttatilkynning NASF á Íslandi er hér í heild sinni.

„NASF á Íslandi (North Atlantic Salmon Fund), náttúruverndarsamtök sem hafa vernd norðuratlantshafslaxins að meginmarkmiði, hafa komist að samkomulagi við hluta landeiganda á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár um að laxanet þeirra verði ekki sett niður næstu 10 ár, til 2031. Samkomulagið felur í sér að NASF á Íslandi greiðir umræddum landeigendum á svæðinu fyrir að veiða ekki lax með netum.

Tilgangur þess er að vernda villta atlantshafslaxinn en stofninn hefur átt undir högg að sækja á liðnum árum. Með samkomulaginu er virtur réttur landeigenda og netabænda á svæðinu, hvort sem litið er til hefða og venju eða til tekjulindar. Þeir aðilar sem eiga aðild að samkomulaginu eru þó sammála um mikilvægi þess að vernda laxastofninn og ýta undir frekari vöxt hans til framtíðar.

NASF ætlar að vinna með landeigendum og leigutökum á vatnasvæðinu að því markmiði að sem mest af laxinum fái að njóta vafans þegar hann er kominn á sínar hrygningaslóðir. Jafnframt lýsa samningsaðilar því yfir að þeir munu styðja og beyta sér fyrir auknum rannsóknum á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár. Samningsaðilar hafa væntingar um að aðgerðir þeirra muni hafa jákvæð áhrifa á laxagengd á svæðinu og með auknum rannsóknum verði hægt að mæla þau áhrif sem samningurinn mun hafa.

Bæði landeigendur og leigutakar á svæðinu koma að fjármögnun samkomulagsins í samstarfi við NASF á Íslandi. Þessi ráðstöfun, að semja við landeigendur um nýtingu á svæðinu, er í samræmi við stefnu og tilgang NASF á Íslandi, sem mótaður var af Orra heitnum Vigfússyni, stofnanda sjóðsins. Orri helgaði líf sitt baráttunni fyrir verndun villta atlantshafslaxinum. Aðferðarfræði hans í umhverfisvernd byggði m.a. á því að kaupa veiðiréttindi, hvort sem er á hafi eða í ám, í sátt við hluteigandi aðila, s.s. sjómenn og landeigendur á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Fyrir það hlaut hann fjölmargar viðurkenningar, meðal annars frá umhverfisverndarsamtökum víða um heim.

Elvar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri NASF á Íslandi:

„Það er ánægjulegt að hafa náð samkomulagi við hluta landeiganda á svæðum Hvítár og Ölfusár en saman deilum við þeirri sýn vilja að sjá stofn atlantshafslaxinn vaxa enn frekar. Netaveiðar hafa verið stundaðar bæði sem afþreying og til tekjulindar um árabil og við berum virðingu fyrir þeirri hefð sem hefur skapast á svæðinu. Það er ekki og hefur aldrei verið markmið samtakanna að banna eða koma í veg fyrir veiðar, heldur höfum við kosið að vinna með landeigendum og bændum í þeim tilgangi að vernda stofninn. Við vonum að fleiri landeigendur á svæðinu nái samkomulagi við okkur í framtíðinni.““

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Laxá í Aðaldal Magni Jónsson 2. ágúst 2.8.
100 cm Selá í Vopnafirði Tim Dyer 1. ágúst 1.8.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.

Skoða meira