Fyrstu laxarnir úr Langá

Sigurjón Gunnlaugsson með fallegan smálax úr Langá í morgun. Jógvan …
Sigurjón Gunnlaugsson með fallegan smálax úr Langá í morgun. Jógvan söngvari vissi um tvo fiska. Ljósmynd/JH

Veiði er hafin í Langá á Mýrum og nokkuð hefur sést af laxi neðst í ánni. Jógvan Hansen, söngvari og veiðimaður, er einn þeirra sem er að opna Langá. Hann sagði í samtali við Sporðaköst að hann vissi um tvo laxa sem væru komnir á land.

„Hann er mættur, lúsugur og glæsilegur. Við höfum verið að sjá hann stökkva fyrir framan nefið á okkur,“ sagði Jógvan. Hann nefndi að skilyrði í morgun hefðu verið býsna erfið. Ekki nema þriggja gráðu lofthiti og áin skítköld.

Gústaf Vífilsson með langárlax. Aðstæður í morgun voru krefjandi. Þriggja …
Gústaf Vífilsson með langárlax. Aðstæður í morgun voru krefjandi. Þriggja gráðu hiti og áin köld eftir því. Ljósmynd/JH

Fleiri ár eru að fara að opna og horfa margir spenntir til Elliðaánna sem opna á morgun, með hefðbundnum hætti. Borgarstjóri og Reykvíkingur ársins mæta þar klukkan sjö í fyrramálið. Nokkuð er síðan fyrstu laxarnir sáust ganga í borgarperluna.

Þær systur, Víðidalsá og Vatnsdalsá, opna á morgun og hefur sést eitthvað af fiski í þeim báðum en menn eru með afar hóflegar væntingar fyrir opnuninni.

Laxá í Aðaldal opnar einnig á morgun og nú með nýju fyrirkomulagi, þar sem Nessvæðið er nú komið inn í heildarskiptingu. Laxar hafa sést á nokkrum stöðum í Laxá.

Síðast en ekki síst þá opnar Ytri-Rangá á morgun og þar hafa sést laxar í Djúpósi og Breiðabakka.

Opnunarholl fram til þessa hafa öll verið á rólegum nótum ef undanskilin er opnun í Miðfjarðará sem skilaði 23 löxum og er það meira en í fyrra þegar opnunarhollið var með 18 laxa.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.
100 cm Blanda Neil Boyd 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jörgensen 4. júlí 4.7.

Skoða meira