Er þetta veiðimynd ársins?

Bjarni er hér með áttatíu sentimetra lax og gengur kátur …
Bjarni er hér með áttatíu sentimetra lax og gengur kátur í land. Hins vegar er laxinn sem Magnús er með enn í fullu fjöri. Ljósmynd/Steinþór Jónsson

Einhver skemmtilegasta veiðimynd sem Sporðaköst hafa birt er þessi mynd sem Steinþór Jónsson tók af Bjarna Erni Kærnested, á háfnum, og Magnúsi Árnasyni sem er með stöngina. Það kom nefnilega fljótlega í ljós að laxinn sem Bjarni hafði háfað var ekki laxinn sem Magnús var í sambandi við. Bjarni var spurður út í þetta atvik.

„Ég og makkerinn minn Magnús Árnason vorum á Urriðafosssvæðinu í Þjórsá á laugardaginn. Maggi hafði sett í stóran fisk sem var búinn að vera óður upp og niður eftir öllum hylnum en ekki sýnt sig. Við vorum búnir að reyna nokkrum sinnum að fá hann í færi til að koma honum í háfinn en hann lét illa að stjórn.

Magnús Árnason með 96 sentimetra hænginn sem Bjarni háfaði á …
Magnús Árnason með 96 sentimetra hænginn sem Bjarni háfaði á endanum. Einn af þeim stærstu á þessu tímabili. Ljósmynd/Bjarni Örn Kærnested


Eftir um tuttugu mínútur endaði hann á því að taka sér fasta stöðu við stein í hylnum og neitaði að færa sig. Þegar það var ljóst að fiskurinn ætlaði ekki að hreyfa sig ákvað ég í samráði við Magga að reyna að háfa hann á nokkru dýpi án þess þó að sjá hann. Þegar ég tók háfinn var ég sigri hrósandi því ég var með fiskinn í háfnum. Það var ekki fyrr en ég var á leið í land að ég náði því að Maggi var að segja mér að hann væri enn með fiskinn á og hann væri aftur kominn í stuð,“ hlær Bjarni í samtali við Sporðaköst. Hann heldur áfram.

Hér er Bjarni Örn með allt í keng og Magnús …
Hér er Bjarni Örn með allt í keng og Magnús háfaði og það réttan fisk. Ljósmynd/Magnús Árnason

„Fiskurinn í háfnum hjá mér var um áttatíu sentimetra fiskur sem við slepptum en á endanum náðum við að háfa fiskinn sem Maggi var með og reyndist það vera fallegur 96 sentimetra nýgenginn hængur.“ Þegar hér er komið sögu hlæja allir viðstaddir.

Þeir félagar þekkja sig vel á Urriðafosssvæðinu.

Sáttir félagar. Bjarni Örn vinstra megin og Magnús Árnason glaður …
Sáttir félagar. Bjarni Örn vinstra megin og Magnús Árnason glaður og sæll með veiðiveisluna sem þeir félagar lentu í. Ljósmynd/MÁ

„Hollið okkar er búið að fara í þrjú ár á svæðið og við veiðum aðeins á flugu. Það er virkilega skemmtilegt en á sama tíma krefjandi því ef þú missir stóra fiska í strauminn þá ræður þú ekki við eitt né neitt en það er líka það sem er skemmtilegt við svæðið að þú missir marga fiska. Í ár gekk okkur mjög vel og allir fylltu kvótann sinn ásamt því að veiða og sleppa nokkrum fiskum,“ sagði Bjarni Örn Kærnested.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.
100 cm Blanda Neil Boyd 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jörgensen 4. júlí 4.7.

Skoða meira